Höfðu áhyggjur af látum og lykt
Fyrirtækið Asco Harvester hafði í hyggju að fullvinna þörunga í sveitarfélaginu. Byggingarleyfið var hins vegar fellt úr gildi eftir að kærur bárust frá íbúum sem höfðu áhyggjur af hávaða og óþef, og hversu nálægt vinnslan er íbúðabyggð.
„Þetta hefur náttúrlega gífurleg áhrif og mikið sjokk enda búið að fjárfesta fyrir töluverðar upphæðir,“ segir Anna Ólöf Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Asco Harvester. Hún hafnar því að lykt eða hávaði fylgi vinnslunni.
Málið fór til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála eftir að kærurnar bárust, sem komst að þeirri niðurstöðu að deiliskipuleggja hefði átt svæðið áður en leyfið var veitt, auk þess sem grenndarkynning var talin ófullnægjandi. Framkvæmdir voru stöðvaðar án tafar í framhaldinu og tækjabúnaður liggur nú óhreyfður á svæðinu.
Klúður af hálfu sveitarfélagsins
Ragnar Már Ragnarsson, bæjarfulltrúi Í-listans í Stykkishólmi og byggingarfræðingur, greiddi atkvæði gegn því að Asco Harvester fengi byggingarleyfi. Listinn benti á að samkvæmt aðalskipulagi bæjarins þurfi að deiliskipuleggja hafnar- og athafnasvæði og að ekki sé hægt að fjalla um málið eins og hefðbundið iðnaðarhúsnæði, líkt og gert hafi verið.
„Það má eiginlega segja að þetta sé klúður. Verkefni af þessari stærðargráðu á að sjálfsögðu að fara í deiliskipulag,“ segir Ragnar. Aðspurður segir hann að sveitarfélagið gæti verið skaðabótaskylt vegna málsins.
Anna Ólöf segir málið einkennilegt. Allir hafi verið meðvitaðir um starfsemi þangvinnslunnar og að fyrst um sinn hafi allir verið samþykkir hennar. Staðan hafi breyst í kringum sveitarstjórnarkosningarnar.
„Við fáum úthlutaða lóðina í febrúar. Við vitum að það er stálskortur í heiminum, sem er stór hlut af framleiðslulínunni, og það fer bara í gang pöntun og hönnun á fullt af aðföngum í vinnsluna,“ segir hún.
„En hvað gerist á miðri leið það er eitthvað sem ég get ómögulega svarað út af því að í upphafi höfðum við með okkur alla þá aðila sem sneru að skipulagsmálum bæjarins.”
Ragnar Már segist ekki vera á móti starfsemi Asco Harvester, og segir þvert á móti mikilvægt að skapa fleiri störf í bænum. Það þurfi hins vegar að gerast með lögbundnum hætti.
„Þegar menn samþykkja að fara í það í febrúar að ganga til samninga við fyrirtækið þá standa menn í þeirri meiningu að þetta fari í lögbundið ferli. Svo tekur málið algjöra u-beygju um mitt sumar. Þannig að það er enginn á móti verksmiðjunni per sei en stjórnsýslan í kringum þetta hefur ekki verið til fyrirmyndar skulum við segja,“ segir Ragnar.
Önnur áform í uppnámi
Önnur uppbyggingaráform, eins og við Hamraenda, eru komin í uppnám vegna málsins, enda liggur deiliskipulag heldur ekki fyrir þar.
„Hefur úrskurðurinn samkvæmt þessu einnig fordæmisgildi varðandi stöðu lóðarhafa á öðrum athafnasvæðum í sveitarfélaginu þar sem uppbygging er fyrirhuguð; annars vegar þar sem aðalskipulagið fjallar með sama hætti um þau athafnasvæði og hafnarsvæðið við Skipavík, sem úrskurðarnefndin fjallaði um og hins vegar þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag á þeim svæðum,“ segir Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar, í skriflegu svari til fréttastofu.
Hann segir að fyrir liggi að sátt hafi verið um það að afgreiða mál með þessum hætti, hjá meirihluta og minnihluta „þrátt fyrir orðalag í aðalskipulagi sveitarfélagsins“.
„Nú síðast í ágúst 2022, en einnig fyrr á þessu ári, þar sem samþykkt var að grenndarkynna lóðarumsóknir með sama hætti og í því máli sem úrskurðurinn fjallar um. Einnig voru m.a. byggð hús árið 2006 og 2007 á athafnasvæðum í Stykkishólmi sem fóru samkvæmt þessu gegn þessum úrskurði nefndarinnar.“
Málið er komið á byrjunarreit og ekkert liggur fyrir um hvort verkefnið fái fram að ganga. Anna Ólöf segir þó að fyrirtækið muni áfram leita leiða til þess að hefja starfsemi sína.
„Við erum stödd í Stykkishólmi þar sem innviðirnir eru að veikjast og atvinna fer minnkandi og ég tel það mjög mikilvægt fyrir samfélagið og ýmislegt í heiminum fyrir svona verkefni að ná fram að ganga,“ segir hún og bætir við að um sé að ræða umhverfisvæna vinnslu með sjálfbærri öflun.
Læra þurfi af mistökum
Jakob Björgvin segist vilja leita leiða til þess að halda áfram samstarfi við fyrirtækið. Þá vill hann ekki meina að þetta sé áfellisdómur yfir málsmeðferð sveitarfélagsins.
„Heldur málsmeðferð sveitarfélagsins í þessum málum frá því að aðalskipulagið var samþykkt árið 2002. Á þessum mistökum verða núverandi og fyrrum bæjarfulltrúar, sem tekið hafa þátt í að samþykkja þessa málsmeðferð, að læra af og sveitarfélagið tekur með sér þegar það horft er til framtíðar og til þeirra framtíðar áforma sem munu koma á borð sveitarfélagsins og varða uppbyggingu í sveitarfélaginu á athafnar- og hafnarsvæðum.“
Heimild: Ruv.is