Home Fréttir Í fréttum Vel tengt framtíðarhverfi að Keldum

Vel tengt framtíðarhverfi að Keldum

114
0
Mynd: Reykjavík.is

Framundan er uppbygging á nýju og vel tengdu íbúahverfi í Reykjavík að Keldum. Markmiðið er að þar rísi spennandi nútímahverfi sem byggir á vistvænum samgöngum og stuðlar að kolefnishlutlausu borgarsamfélagi.

<>

Stefnt er að því að þjónusta Borgarlínu hefjist samhliða afhendingu á fyrstu 100 íbúðunum. Áætlaður ferðatími með Borgarlínu frá Keldum í miðborgina er um 20 mínútur.

Samvinna Reykjavíkurborgar og Betri samgangna

Keldnalandið og Keldnaholt er þróað og byggt upp í samvinnu Reykjavíkurborgar og Betri samgangna. Verkefnið er liður í samgöngusáttmálanum frá 2019 og miðar að því að flýta uppbyggingu framtíðarhverfis á Keldum sem og framkvæmdum við Borgarlínu sem fer um hverfið endilangt.

Ein helsta forsenda þess að hægt sé að umbreyta Keldum í blandaða byggð með íbúðum, þjónustu og atvinnuhúsnæði er einmitt þjónusta Borgarlínu.

Í samgöngusáttmálanum var Betri samgöngum falið að annast þróun og sölu ríkislands að Keldum. Allur ábati ríkisins af þróun og sölu landsins mun renna óskertur til verkefnisins um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu.

Tækifæri til að búa til græna borgargarða

Keldur eru fallegt og grænt svæði og verður lögð áhersla á að nýta og taka mið af náttúrugæðum svæðisins. Þarna gefst tækifæri við uppbyggingu til að nýta ræktun sem er fyrir á svæðinu og flétta inn í borgarumhverfið svo úr verði grænir borgargarðar. Hverfið verður að hluta byggt upp í suðurhlíðum og liggur því vel við sólu.

Fleiri staðreyndir um uppbygginguna:

  • Alþjóðleg tveggja þrepa samkeppni verður haldin í upphafi árs 2023.  Í framhaldinu verður unnið skipulag á grunni verðlaunatillögu.
  • Stefnt er að því að hægt verði að þróa deiliskipulag fyrir fyrstu uppbyggingarreitina á svæðinu haustið 2023.
  • Svæðið í heild er alls 115 hektarar.
  • Notast verður við blágrænar ofanvatnslausnir.
  • Stefnt er að því að byggðin verði BREEAM-vottuð.
  • Áhersla er á góðar almenningssamgöngur og framúrskarandi göngu- og hjólaleiðir.
  • Samnýtt bílastæðahús verða á lykilstöðum.
  • Hverfið verður vel tengt við nærliggjandi hverfi.
  • Lögð er áhersla á að félagsleg blöndun verði tryggð á svæðinu og að mismunandi íbúðagerðir blandist sem mest saman og höfði til ólíkra samfélags- og og aldurshópa.
  • Aðalskipulag Reykjavíkur liggur til grundvallar með áherslu á sjálfbæra, mannvæna og fjölbreytta byggð.

Nánar er hægt að lesa um þessi atriði og meira til á upplýsingasíðu verkefnisins á vef Reykjavíkurborgar reykjavik.is/keldur.

Heimild: Reykjavik.is