Home Fréttir Í fréttum Öryggi stefnt í hættu með niðurskurði í vegaframkvæmdum

Öryggi stefnt í hættu með niðurskurði í vegaframkvæmdum

140
0
Sigurður R. Ragnarsson

„Með því að draga með þessum hætti úr nauðsynlegum vegaframkvæmdum er ekki einungis öryggi vegfarenda stefnt í hættu.

<>

Þetta setur líka rekstur þeirra fyrirtækja sem eru í bygginga- og mannvirkjagerð úr skorðum. Þeirra bíður að draga úr framkvæmdum, fækka starfsfólki og losa tækjabúnað.

Það er staðan sem blasir við þeim sem starfa í greininni,“ segir Sigurður R. Ragnarsson, stjórnarformaður Íslenskra aðalverktaka og varaformaður SI, í Fréttablaðinu.

Áform um 4ra milljarða króna niðurskurð í samgönguframkvæmdum

Í fréttinni kemur fram að Samtök iðnaðarins gagnrýni harðlega niðurskurð til samgöngumála sem boðaður hafi verið í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar og lýsi yfir þungum áhyggjum af þeim áformum ríkisstjórnarinnar að skera niður í samgönguframkvæmdum um hátt í fjóra milljarða fram til ársins 2024.

Á meðal þeirra framkvæmda sem stendur til að slá á frest, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, er tvöföldun Reykjanesbrautar við Straumsvík og kemur fram að sú framkvæmd hafi verið tilbúin til útboðs frá því í júní.

Verði fjárlagafrumvarpið samþykkt óbreytt stefni í að framkvæmdir þar hefjist ekki fyrr en eftir tvö ár.

Engar framkvæmdir við þrjár meginumferðaræðar til og frá höfuðborgarsvæðinu

Í Fréttablaðinu segir að með niðurskurðinum bætist þannig í uppsafnaða viðhaldsþörf í vegasamgöngum að mati Sigurðar.

„Þetta mun reynast mjög kostnaðarsöm skuldasöfnun því áætluð uppsöfnuð viðhaldsþörf vegna vega landsins er þegar á bilinu 110–130 milljarðar króna.“

Sigurður segir að ríki og sveitarfélögin hafi gert vel í heimsfaraldrinum og fjárfest duglega í innviðum. „Það hefur verið töluverð uppbygging á þessu sviði síðastliðin misseri en nú horfir svo við að í fjárlagafrumvarpi næst árs verði aftur gert ráð fyrir niðurskurði.“

Hann bætir við að ef fari fram sem horfir verði engar framkvæmdir í gangi við þrjár meginumferðaræðarnar til og frá höfuðborgarsvæðinu á næsta ári.

„Þetta er dálítið nöturleg staðreynd fyrir þessa þrjá mest eknu kafla vegakerfisins sem hafa jafnframt að geyma hættulegustu vegarkafla kerfisins. Við sem samfélag eigum ekki að unna okkur hvíldar fyrr en þessir vegakaflar eru komnir í ásættanlegt horf fyrir vegfarendur.“

Fréttablaðið, 3. nóvember 2022.

Heimild: SI.is