Endurbygging hins sögufræga og friðaða húss Hafnarstræti 18 í Reykjavík er á lokametrunum. Verkefnið hófst í nóvember 2018 og hefur því staðið yfir í fjögur ár. Húsið var afar illa farið og ekkert annað í stöðunni en að rífa það og endurbyggja. Ljóst er að húsið verður mikil götuprýði.
Tækifærið var notað til að lyfta húsinu upp um 90 cm og byggja nýja viðbyggingu sunnan við það. Gamlir skúrar voru rifnir. Nokkrar ástæður voru taldar mæla með hækkun hússins. Það er áberandi lægst í umhverfinu og talið sóma sér mun betur ef því væri lyft.
Undir austari hluta hússins er um 100 m2 hlaðinn kjallari sem er líklega upprunalegur frá 1795. Húsið var tekið niður og byggður kjallari undir það allt. Það var síðan endursmíðað með upprunalegum aðferðum og þeim gömlu grindarviðum sem nýtanlegir voru. Húsið var 680 fermetrar en verður eftir breytinguna 1.020 fermetrar.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 5. nóvember.
Heimild: Mbl.is