Home Fréttir Í fréttum 1.500 íbúðir í farvatninu

1.500 íbúðir í farvatninu

166
0
Ingvi Jónasson, framkvæmdastjóri Klasa. Ljósmynd: Eyþór Árnason

Framkvæmdastjóri Klasa segir innkomu Haga og Regins í hluthafahópinn gera félaginu kleift að auka umsvif verulega.

<>

Vænt byggingamagn Klasa á næstu árum sé um 300 þúsund fermetrar þar sem gert sé ráð fyrir um 1.500 íbúðum.

Kaup Haga og Regins á hlutafé í fasteignaþróunarfélaginu Klasa ehf. hafa verið frágengin og greiddu félögin fyrir nýja hluti í Klasa með afhendingu eigna.

Samkeppniseftirlitið lagði blessun sína yfir viðskiptin síðasta sumar í kjölfar sáttar sem undirrituð var á milli eftirlitsins og Haga.

Eigendur Klasa eftir viðskiptin eru  Reginn, Hagar og KLS eignarhaldsfélag, hvert með sinn þriðjung hlutafjár.

Starfsemi Klasa, sem var stofnað fyrir 18 árum, mun að sögn framkvæmdastjórans Ingva Jónassonar haldast óbreytt fyrir utan það að umsvifin komi til með að aukast verulega.

Félagið muni sem fyrr geta horft til mjög langs tíma með safn verkefna sem séu mislangt á veg komin.

„Klasi hefur frá árinu 2004 sérhæft sig í þróun, stýringu og rekstri fasteignaverkefna og hefur haft aðkomu að mjög umfangsmiklum þróunar- og skipulagsverkefnum ásamt uppbyggingu eignasafna frá stofnun.

 Aðaláhersla félagsins í dag er á fasteignaþróunarhlutann, þ.e. að koma snemma inn í þróunarferlið en þó jafnframt í ákveðnum tilfellum að fylgja verkefnum eftir þegar skipulagsvinnu og viðskiptaþróun lýkur og stýra þá framkvæmdum og jafnvel afhenda íbúðir eða atvinnurými.

Í dag starfa níu manns hjá félaginu sem sinna þróunar- og framkvæmdaverkefnum þess. Starfsmennirnir búa yfir mikilli reynslu og þekkingu á öllum sviðum þróunar og framkvæmda,“ segir Ingvi.

Verðmæti eigna Klasa eftir viðskiptin er að sögn Ingva tæpir 15 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall um 80%.

Eignir félagsins samanstandi af um 116.000 lóðafermetrum þar sem vænt byggingamagn geti verið um 300.000 fermetrar og þar af sé gert ráð fyrir um 1.500 íbúðum, auk þeirra íbúða sem nú eru í byggingu og stýringu.

„Með aðkomu Regins og Haga að Klasa mun grundvöllur starfsemi Klasa styrkjast enn frekar með þeim áhugaverðu verkefnum sem unnið verður að á næstu árum.

Klasi mun búa að eignasafni sem í felast veruleg tækifæri, auk þess að búa yfir umtalsverðum fjárhagslegum styrk til að fylgja verkefnum eftir.

Þá býr félagið yfir þekkingu og reynslu til að taka þátt í stærri langtímaverkefnum á öllum stigum fasteignarþróunar.  Á meðal markmiða félagsins er að leggja áherslu á sjálfbærni og styðja við fjölbreytta og sjálfbæra borgarþróun í formi blöndu af fjölbreyttu atvinnu- og þjónustuhúsnæði og íbúðum,“ segir Ingvi.

Heimild: Vb.is