Home Fréttir Í fréttum Bygging nýrrar vegbrúar yfir Stóru-Laxá

Bygging nýrrar vegbrúar yfir Stóru-Laxá

401
0
Brú yfir Stóru-Laxá. Mynd: VSO.is

Framkvæmdir við byggingu nýrrar vegbrúar yfir Stóru-Laxá, á mörkum Hrunamannahrepps og Skeiða- og Gnúpverjahrepps, stendur nú sem hæst.

<>

Um er að ræða tvíbreiða, staðsteypta, eftirspennta bitabrú í fjórum höfum. Nýja brúin er byggð við hlið einbreiðrar eldri brúar sem fyrirhugað er að standi áfram og öðlist nýtt hlutverk sem reiðbrú yfir Stóru-Laxá.

Brú yfir Stóru-Laxá. Mynd: VSO.is

Ásamt byggingu sjálfrar brúarinnar felst í verkinu gerð nýs vegkafla Skeiða- og Hrunamannavegar beggja vegna brúarinnar, breikkun T-gatnamóta við Skarðsveg og við Auðholtsveg og gerð reiðstígs. Heildarlengd vegkafla er rúmlega 1.000 m og reiðstígs um 300 m.

Uppsteypu sökkla og stöpla nýju brúarinnar lauk í júlí sl. en fyrirhugað er að steypa brúardekkið sjálft í nóvember. Brúardekkið, sem er 145 m langt, verður þá steypt í einu lagi en í það munu fara u.þ.b. 1.212 rúmmetrar af steypu og mun steypuvinnan standa yfir í 36 klukkustundir samfleytt.

Brú yfir Stóru-Laxá. Mynd: VSO.is

Áríðandi er að sérlega vel sé staðið að skipulagi og undirbúningi slíkrar steypuvinnu m.a. þar sem hafa þarf nokkrum sinnum vaktaskipti á tímabilinu sem ganga þurfa snurðulaust fyrir sig.

Verktaki verkefnisins er Ístak ehf. en VSÓ Ráðgjöf sinnir framkvæmdaeftirliti og -ráðgjöf við verkefnið.
Verkkaupi er Vegagerðin.

Heimild: VSO.is