Endurskipulagning sem bauð upp á breytingar
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er starfrækt í Reykjavík, Sauðárkróki, Akureyri og Borgarnesi en störfin fimm sem á að bæta við eru öll á sviði brunabóta og koma til í kjölfar endurskipulagningar þar sem fasteignaskrá færðist frá Þjóðskrá yfir til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, er meðal þeirra sem tók til máls á fundinum og talaði um markmið þessa skrefs.
„Við ætlum að reyna að tryggja að hlutfall opinberra starfa sé með jafnræði í landshlutum. Það er langhæst á höfuðborgarsvæðinu, eða 72% þó þar búi bara 64%. Við erum í raun að vinna að því að reyna að jafna þetta hlutfall, sem og að skapa tækifæri fyrir fólk með ólíkan bakgrunn og mismunandi menntun að sækja störf út á land og búa þar sem það vill.“
Yfirskrift fundarins er Þetta er hægt! Hvernig myndir þú útskýra það?
„Það hefur á liðnum árum mjög margir verið tilbúnir að gagnrýna flutning starfa út á land og haldið því fram að það séu alls konar þröskuldar í vegi. Við erum bara að lýsa því yfir hér í dag að þetta sé hægt og hafi verið gert með góðum árangri. Það er viljinn sem þarf og viljinn er fyrir hendi og við erum að framkvæma þetta,“ segir Sigurður.
„Lítið en samt stórt skref“
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrarbæjar, tekur nýju störfunum fagnandi. „Þetta er bara eitt lítið en samt stórt skref í því að auka flóruna af störfum fyirr háskólamenntað fólk hér á þessu svæði og til þess að efla starfsstöð HMS þannig þetta skiptir okkur miklu máli.“
Stórborgin Akureyri hluti af Borgarstefnu
Á fundinum kynnti ráðherra einnig hugmyndina um Borgarstefnu þar sem teknar eru fyrir tvær borgir, Reykjavík sem höfuðborg og Akureyri sem svæðisborg. Nú vinur starfshópur að því að móta stefnu fyrir þessar tvær borgir sem á að styrkja þær sjálfar, auk landsins í heild sinni.
Heimild: Ruv.is