Í lok síðustu viku fengu eigendur Smárabrautar 14 á Blönduósi afhenta lykla að nýja húsinu sínu. Byggingaraðili og seljandi er Blanda ehf. sem er í eigu Lárusar Jónssonar og nýju eigendurnir eru Auður Ingibjörg Hafþórsdóttir og Óli Guðlaugur Laursen.

Húsið er fjögurra herbergja parhús og með bílskúr er það um 150 fermetrar að stærð. Bygging þess hófst í fyrra og var Lárus Jónsson byggingarstjóri, Páll Marteinsson byggingarmeistari og yfirsmiður var Erlendur Kolbeinsson.

Húsið er á steyptum sökkli og steyptri plötu, timburklætt með járni á þaki. Þá er gólfhitalögn í húsinu. Miðstöðin ehf. sá um pípulagnir, Einþór Skúlason á Laugarbakka um rafmagn og Stefán Pálsson um jarðvegsvinnu. Þá vann Bjarki Kristjánsson, smiður hjá Húsherja, einnig að byggingu hússins.
Heimild: Huni.is