Home Fréttir Í fréttum Skrif­finnskan orðin stærri þáttur en fram­kvæmdin sjálf

Skrif­finnskan orðin stærri þáttur en fram­kvæmdin sjálf

426
0
Vignir Steinþór Halldórsson, annar eigandi byggingarfyrirtækisins Öxar og stjórnarmaður í Samtökum iðnaðarins. Hann er einnig meðstofnandi MótX en seldi hlut sinn í félaginu í fyrra. Ljósmynd: Eyþór Árnason

Vignir Steinþór Halldórsson, sem situr í stjórn SI, gagnrýnir aukna skriffinnsku og lengd samþykktarferils uppbyggingarverkefna, sérstaklega í Reykjavík.

<>

Vignir Steinþór Halldórsson, annar eigenda byggingarfyrirtækisins Öxar og stjórnarmaður hjá Samtökum iðnaðarins, gagnrýnir síaukna skriffinnsku og lengd samþykktarferla hjá sveitarfélögum þegar kemur að byggingarverkefnum í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark.

Að koma blessaða húsinu upp er orðið minnsta málið í ferlinu að hans sögn. „Þegar ég byrjaði í bransanum þá var það stóra málið. Núna er stærsti hluturinn bara skriffinnskan við að koma þessu af stað og alls konar hindranir. Þessu hefur öllu fjölgað.“

Hann tekur Reykjavíkurborg fyrir og gagnrýnir forsjárhyggju borgarfulltrúa þegar kemur að uppbyggingarverkefnum.

„Þar eru yfirleitt mestu kvaðirnar. Ég kaupi lóð, ég ræð hvaða arkitekt ég vel mér og svoleiðis en ég má bara gera svona margar þriggja [herbergja íbúðir], svona margar fjögurra, svona margar fimm […] Af hverju má ég ekki ráða hvort ég geri hundrað þriggja eða hundrað fimm herbergja íbúðir? Af hverju þarf sveitarfélagið að ákveða það fyrir mig?“ spyr Vignir.

Í þokkabót þurfi 25% íbúða að vera á vegum húsnæðisfélaga sem ekki eru rekin í ágóðaskyni. Borgarstjórn hækkaði umrætt hlutfall í húsnæðisáætlun sinni úr 20% í 25% fyrir rúmu ári síðan. Gert er ráð fyrir að 5% alls íbúðahúsnæðis sé félagslegt húsnæði.

Þolir ekki ósamræmið

Vignir segist heldur ekki þola ósamræmi í byggingarreglugerðum sem geri það að verkum að menn gangi aldrei að neinu sem vísu. Hann tekur dæmi um uppbyggingarverkefni í Úlfarsárdal sem fyrirtækið hans Öxar vinnur að þessa dagana.

„Við þurfum að taka ógurlegt tillit til skuggavarps af því að mögulega, tvo klukkutíma tvisvar á ári, kemur skuggi frá mínu húsi yfir á einhver raðhús. Hinum meginn í dalnum í Grafarholti, þar mátti bara þrykkja fleiri stúdentaíbúðum í garðinum hjá [Stúndentagörðum]. Þar skipti skuggavarp engu máli.“

Vignir tekur fram að hann sé ekki á móti reglugerðunum sem slíkum og segist til að mynda þeirrar skoðunar að ákveðin hverfi líkt og Valsreiturinn í Hlíðunum og Sunnusmárinn fyrir ofan Smáralind séu of þröng. Hann vill þó sjá meðalhóf og samræmi á milli verkefna í reglugerðum.

Til viðbótar við aukna skriffinnsku þá bendir Vignir á að ríkið og sveitarfélög hafa gripið til ýmissa ráðstafana á undanförnum árum, s.s. að heimila að greiða út séreignarsparnað í íbúðalán og hlutdeildarlán, sem ýta undir eftirspurn á markaðnum.

„En það er aldrei hugsað um hinn endann, það þarf að framleiða meira […] Við ætlum bara endalaust að dæla í eftirspurnina og hjálpa þessum og hinum að kaupa en við hugsum aldrei um hinn endann.“

Reiturinn tilbúinn en Dagur „fílar það ekki“

Vignir ræddi einnig um þéttingarstefnu Reykjavíkurborgar en hann telur að hún hafi leitt af sér aukinn kostnað byggingaframkvæmda og flækt samþykktarferli byggingaverkefna með tilheyrandi hærra íbúðaverði og skorti.

„Það er frábært að þétta byggð en brjóttu nýtt land með, hafðu þetta saman. Ekki bara: „Nei nei, næstu 20 árin munum við ekki byggja austan við Elliðaár“,“ segir Vignir. „Mig langar ekkert endilega að kenna Degi um þetta en jú þetta er fullt honum að kenna.“

„Ég hef töluvert fínar heimildir fyrir því að það sé tilbúinn reitur í Úlfarsárdal þar sem ég er að byggja núna. Hann er bara til í skúffu. Það er hægt að rífa hann upp, halda fund og stimpla hann en Dagur fílar það ekki.“

Vignir lýsir því að borgarfulltrúar og þeir sem verja þéttingarstefnuna í borginni beri fyrir sig að þétting byggðar dragi úr losun og stuðli þannig að grænni vegferð.

„En hvað þýðir þetta? Það eru allir fluttir til Selfoss, Akraness, Keflavík, Vogana á Vatnsleysuströnd og keyra í bæinn.“

Heimild: Vb.is