Þegar flóðs var beðið vegna gossins í Eyjafjallajökli fyrir 6 árum vaknaði á ný áratugagömul umræða um brú úr Vestur Landeyjum yfir Þverá eða Hólsá. Við rýmingu þurftu margir í Landeyjum og á Þverárbökkum að fara langa leið á móti væntanlegu flóði til að komast yfir Þverá. En kostnaður við nýja brú var talinn hlaupa á hundruðum milljóna króna.
Ódýr brú og ný leið
Sveitarstjórnarmenn í Rangárþingi viðruðu í fyrra nýja hugmynd um brú og brúarstæði: Að nota brúna sem var til bráðabirgða á Múlakvísl frá 2011 til 2014 og brúa Þverá við Ármót, þar sem mætast Bakkabæjavegur og Þúfuvegur. Frá henni yrði tveggja kílómetra malarvegur að Odda á Rangárvöllum. Þar tekur við malbikaður vegur upp á hringveginn. Þetta myndi stytta leið margra á þessum slóðum til Hellu og áfram vestur um 12-14 kílómetra. Á myndunum að ofan sést leið vegar frá Þúfuvegi við árbakkann að Odda, og frá Odda yfir að Ármótum.
Aukið öryggi
Kjartan Þorkelsson lögreglustjóri á Suðurlandi segir að brúin auki öryggi, þó líklegra þyki að hlaup vegna Kötlugoss kæmi að austanverðu. „Það breytir okkar áætlunum svolítið varðandi rýmingar ef kæmi til Kötlugoss og kæmi hlaup hérna niður að vestanverðu, niður Entujökulinn. Þá fáum við mun betri tíma til að rýma Landeyjarnar á eftir. Þá þurfum við ekki að rýma á móti flóðalínunni, heldur getum rýmt þarna í vesturátt. Þetta skiptir máli, ef til þessara atburða kæmi“.
Heimild: Rúv.is