Home Fréttir Í fréttum Þrjú ný hjúkrunarheimili verða byggð

Þrjú ný hjúkrunarheimili verða byggð

62
0
214 ný hjúkrunarrými verða til á næstu árum því til stendur að byggja þrjú ný hjúkrunarheimili. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir að kostnaðurinn sé fimm og hálfur milljarður króna.

Formaður Félags eldri borgara, dró í fréttum RÚV í gær í efa að framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hjúkrunarheimila væri til en tæpir níu mánuðir eru frá því heilbrigðisráðherra boðaði slíka áætlun. „Áætlunin varð til um mitt ár,“ segir Kristján Þór. „Hún hefur frá þeim tíma verið í lögbundnu umsagnar- og eftirlitsferli og við fengum niðurstöðu úr því núna um áramótin sem ég er að fara að kynna þessa dagana,“ bætir Kristján við.

<>

Tvö hjúkrunarheimili verða byggð á höfuðborgarsvæðinu og eitt í Árborg. Alls verður pláss þar fyrir 214. Þá verður á næsta ári tekið í notkun hjúkrunarheimili á Seltjarnarnesi með plássi fyrir fjörutíu manns. „Þetta eru alls um 254 ný rými og kostnaðurinn við þessar framkvæmdir er áætlaður á 3-5 árum um 5,5 milljarðar króna,“ segir Kristján Þór. „Síðustu rýmin kæmu þá vonandi í gagnið eftir fimm ár,“ bætir hann við.

Umsagnarferlið tekur ekki til Félags eldri borgara. „Þetta lýtur fyrst og fremst að því að fá mat á kostnaði og fjármögnun á þeim verkum sem þarna um ræðir,“ segir Kristján.

Um gagnrýni formanns Félags eldri borgara segir Kristján að formaðurinn verði sjálfur að svara fyrir orð sín. „Það er ósköp eðlilegt að fólk hafi efasemdir en það verður bara að rökstyðja það sjálft án þess að þeim sé efnislega svarað,“ segir Kristján Þór.

Heimild: Rúv.is