Home Fréttir Í fréttum Faxaflóahafnir lengja aðalhafnargarðinn á Akranesi

Faxaflóahafnir lengja aðalhafnargarðinn á Akranesi

245
0

Til að bæta aðgengi fyrir fiskiskip, farþegaskip og önnur þau skip sem höfnin á Akranesi þjónustar verður ytri hluti Aðalhafnargarðsins lengdur um 120 metra.  Heildarlengd þess hluta bakkans verður þá 220 m.

<>

Áætlað er að framkvæmdin verði boðin út í lok árs 2022 og að framkvæmdir hefjist á fyrri hluta árs 2023.  Útboð á stálkaupum fyrir framkvæmdina fór fram á árinu 2022 og var afhent á Akranesi nú í september.  Vert er að taka fram að 100% af stálinu er gert úr endurunnu stáli sem samræmist stefnu Faxaflóahafna.  Framkvæmdartími verksins er áætlaður 1,5 – 2 ár og verður bakkinn því tilbúinn til fullrar notkunar árið 2024, segir Inga Rut Hjaltadóttir, sviðsstjóri Framkvæmdasviðs.

Að sögn Sigurðar Jökuls Ólafssonar markaðsstjóra Faxaflóahafna hefur stækkun bryggjunnar þegar verið kynnt útgerðum farþegaskipa og var framkvæmdinni mjög vel tekið. Hún mun þýða að farþegaskip í millistærð munu geta lagst að bryggju í Akraneshöfn og farþegar þeirra upplifað það sem Akranes og nærumhverfi hefur upp á að bjóða. Nú þegar hafa verið bókaðar skipakomur á Akranes fyrir sumarið 2023 og áætlað er að þær verði enn fleiri sumarið 2024 þegar bryggjan verður tilbúin.

Stækkun bryggjunnar á Akranesi er mikilvægur liður í þeirri uppbyggingu sem er að eiga sér stað á Akranesi. Hún mun bæta aðstöðu fyrir fiskiskip og stærri skip sem sækja auðlindir á hafi. Tækifæri samhliða stækkun er að sækja á fengsæl Akranesmið í botnfiski eða uppsjávarfiski. Einnig liggja möguleikar í fengsælum miðum grjótkrabba í Faxaflóa eða styðja við ný verkefni í loftlagstengdri ræktun á sjávargrænmeti og kræklinga- eða ostruræktun.  Jafnframt mun stækkun gera millistórum farþegaskipum kleift að leggjast að bryggju á Akranesi og þannig bjóða farþegum skipanna að upplifa það sem Akranes og nærumhverfi hefur upp á að bjóða t.d. Guðlaugu við Langasand, vitasvæðið á Breið, Byggðasafnið í Görðum og frábæran golfvöll. Uppbygging hafnarinnar mun auka forskot Vesturlands í að taka virkari þátt í ferðaþjónustu, við verðum betur í stakk búin til þess að taka á móti stærri skipum. Stækkunin mun verða gríðarleg styrking okkar landshluta og eru mörg tækifæri í sjónmáli. Í byrjun ársins 2021 var haldinn íbúafundur á meðal Akurnesinga þar sem ýmsir hagaðilar af ferðaþjónustu komu saman, afrakstur fundarins var skemmtilega upp sett leiðbeiningaskjal með leiðbeiningum fyrir gesti hvað væri gaman að sjá og gera á Akranesi. Við á Akranesi eigum margt inni og erum full tilhlökkunar að móta Akranes sem spennandi og eftirsóknarverðan ferðamannastað, segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi.

Heimild: Faxaflóahafnir.is