Home Fréttir Í fréttum Gamla Selfossbíó lítur dagsins ljós á ný

Gamla Selfossbíó lítur dagsins ljós á ný

419
0

Samkvæmt tillögu að nýju deiliskipulagi í miðbæ Selfoss er gert ráð fyrir því að eitt af húsunum verði endurgerð af gamla Selfossbíó eins og sjá má á myndinni hér að ofan.

<>

Selfossbíó, sem reist var árið 1944 og rifið árið 1986, átti stóran stað í hjarta margra Selfyssinga, en saga hússins er sannarlega merkileg, eins og fram kom í grein Guðmundar Kristinssonar í 830. útgáfu Dagskrárinnar árið 1986.

„Á stríðsárunum jókst umferð mjög um Selfoss, einkum í sambandi við hið fjölmenna setulið í Kaldaðarnesi. Tryggvaskáli var þá eina gisti- og veitingahúsið á Selfossi og því kom fljótlega upp sú hugmynd að reisa þar nýtt veitinga- og kvikmyndahús. Eflaust hefur Egill Thorarensen kaupfélagsstjóri verið aðal hvatamaður að félagsstofnun í þessu skyni,“ segir í grein Guðmundar. Egill fékk til liðs við sig tíu valinkunna menn víða af Suðurlandi og úr Reykjavík og stofnuðu þeir hlutafélagið „Selfossbíó hf.“ Nam hlutaféð 70.000 kr.

Selfossbíó sumarið 1945. Mynd: Hugborg.

536 fermetra tímamótabygging

Gunnlaugur Halldórsson arkitekt teiknaði Selfossbíó og Guðmundur Eiríksson frá Eyrarbakka var yfirsmiður. Aðalhúsið var 326 fermetrar með rúmgóðri forstofu, stórum samkomusal og leiksviði en salurinn tók allt að 300 manns í sæti.

Vestur af innganginum var veitingasalur sem kallaður var Gildaskálinn, með eldhúsi og öðrum minni sal. Var veitingaálma hússins 210 fermetrar að stærð og allt húsið því 536 fermetrar.

Laugardaginn 13.maí 1944 var húsið tekið í notkun við hátíðlega athöfn. Öllum Selfyssingum var boðið á kvikmyndasýningu, þar sem Egill Thorarensen Flutti ræðu og fullyrti að húsið myndi valda tímamótum í skemmtanalífi héraðsbúa.

Skömmu síðar var komið upp gistiaðstöðu við bíóið. Átján herbergja timburhús sem kallað var Langavitleysan. Hún brann til grunna aðfaranótt 6. janúar 1950.

Selfossbíó var á sínum tíma mikið og veglegt hús og bætti úr brýnni þörf sem eitt helsta samkomuhús á Suðurlandi. Lengst af voru kvikmyndasýningar stærsti þátturinn í rekstri hússins, en mikið dró úr þeim eftir að sjónvarpið hóf göngu sína haustið 1966.

Selfossbíó um 1980.

Frá dansleikjum til messuhalda

Þar voru haldnar flestar stærri samkomur og fjölmennustu fundir á svæðinu, margskonar sýningar og leiksýningar, 17. júní samkomur, þorrablót og dansleikir sem nutu mikilla vinsælda.

Í raun svo mikilla að ungmenni þyrptust þangað, bæði úr nærsveitum og Reykjavík og segir sagan að þegar mest lét hafi á milli 7-800 manns verið hleypt inn í húsið.

Áður en Selfosskirkja var reist og þegar Laugardælakirkja dugði ekki fyrir sívaxandi fólksfjöldann á Selfossi var að auki messað í bíóinu í nokkur ár.

Það er því dagljóst að Selfossbíó kemur til með að sóma sér vel í nýju hlutverki í miðbæ Selfoss en telja má næsta öruggt að nánar verði fjallað um nýja, gamla Selfossbíó á kynningarfundi sem haldinn verður á Sviðinu, nýja viðburða- og tónleikasalnum við Brúartorg í miðbænum á fimmtudagskvöld klukkan 19:30.

Heimild: Dfs.is