Sádi-Arabíu hefur fallið sá heiður í skaut að vera gestgjafi Asísku vetrarleikanna árið 2029 og standa þar nú yfir veglegar byggingarframkvæmdir svo þetta megi verða.
Hyggjast Sádar byggja 500 milljarða dala borg undir leikana en sú upphæð nemur tæpum 72.000 milljörðum íslenskra króna.
„Eyðimerkur og fjalllendi Sádi-Arabíu verða brátt vettvangur vetrarleika,“ segir í fréttatilkynningu Ólympíuráðs Asíu (OCA) er ráðið sendi frá sér af fundi sínum í Phnom Penh í Kambódíu í dag.
Borgin vakið verðskuldaða athygli
Enn fremur kemur þar fram að tilboð Sáda um að halda leikana hafi verið samþykkt einróma innan ráðsins en borgin nýja, NEOM eins og hún kallast, verður fyrsta borgin í Vestur-Asíu til að hýsa leikana.
NEOM hefur vakið verðskuldaða athygli allar götur síðan tilkynnt var um byggingu hennar árið 2017, meðal annars vegna fyrirætlana um fljúgandi leigubifreiðar og vélmenni í þjónustustörfum, hverra notagildi arkitektar og hagfræðingar hafa dregið í efa.
„Á dauða mínum átti ég von frekar en að fara á skíði í mínu heimalandi,“ segir sádiarabíski skíðagarpurinn Fayik Abdi við AFP-fréttastofuna en val OCA hefur einnig sætt gagnrýni og Sádum verið legið á hálsi fyrir að stunda svokallaðan „íþróttaþvott“ (e. sportswashing) með því að hýsa stórar keppnir í hnefaleikum, Formúlu eitt og öðrum áberandi og vinsælum íþróttum til að draga athygli umheimsins frá bágri stöðu mannréttindamála í landinu.
Heimild: Mbl.is