Home Fréttir Í fréttum „Miðborg Reykjavíkur á skilið betra en þetta“

„Miðborg Reykjavíkur á skilið betra en þetta“

304
0

„Það er alveg skelfilegt að sjá þetta,“ segir Trausti Valsson, skipulagsfræðingur, um fyrirhugaða uppbyggingu í miðborg Reykjavíkur. Arkítekt segir húsin sem til stendur að reisa „leiðinleg“.

<>

Kynntar hafa verið hugmyndir um uppbyggingu á reitnum norðan Lækjartorgs sem fengið hefur heitið Hafnartorg. Hugmyndirnar eru strax orðnar umdeildar og hefur forsætisráðherra sagt að sögulegt skipulagsslys sé í uppsiglinu. Borgarstjóri er hins vegar á öðru máli og segist spenntur fyrir uppbyggingunni.

Egill Helgason opnaði fyrir umræður um málið á bloggsíðu sinni í gær og sagði að ekkert í tillögunum minni á Höfnina eða „nokkurn skapaðan hlut í nágrenninu. Húsin minni á tíma byggingabólu þegar spákaupmenn hafa flykkst yfir í byggingabransann.

Á meðal þeirra sem taka til máls eru Hilmar Þór Björnsson, arkítekt, sem skrifað hefur um skipulagsmál á Eyjuna. Hann segir að eitt það mikilvægasta sem arkítekt þurfi að hafa sé tilfinningum fyrir staðnum sem húsið á að rísa á.

”Við þekkjum svona hús víða að úr heiminum. Það sem einkennir þau er skortur á höfundar- og staðareinkennum. Þau eru alþjóðleg og leiðinleg. Miðborg Reykjavíkur á betra skilið en þetta.“

10.1.2016 Hafnartorg
Bætir Hilmar Þór við að Hafnartorg kallast hvorki „arkitektoniskt“ á við höfnina né gamla miðbæinn. Trausti leggur einnig orð í belg og segir „skelfilegt að sjá þetta“.

”Ýmislegt ágætt hefur verið gert í byggingu nýrra húsa í gamla bænum þar sem reynt er að laga nýju byggðina að því sem fyrir er. En nú virðist búið að henda þeirri hugsun – sem þó er ráðandi út um allan heim – út um gluggann. Og ekki aðeins þarna, heldur t.d. með hóteltillögu á horni Vonarstrætis og Lækjargötu og með nýrri vestur-götuhlið á Frakkastíg, móts við gamla Franska spítalann.“
Víkin sem Reykjavík er kennd við

Rithöfundurinn Andri Snær Magnason skrifaði grein um uppbyggingu á svæðinu snemma árs 2009, skömmu eftir hrun bankanna og ljóst varð að ekki yrði byggt á lóðinni í bráð. Sagði hann að malarplanið sem þar var fyrir væri ljótt og tilgangslaust, en svo hefði ekki alltaf verið.

”Það var einu sinni fullt af húsum. Og það var ekki aðeins fullt af húsum heldur var þarna einu sinni Vík. Og hvað er svona merkilegt við Víkina sem hefur verið fyllt upp í? Jú – hún er líklega sú Vík sem Reykjavík er kennd við.“
Væntanlega sé þarna að finna fjöruna þar sem Ingólfur Arnarson fann súlur sínar. Þetta sé því sögustaður – upphaf byggðar á Íslandi. Því miður hafi Íslendingum ekki borið gæfa til að rækta staðinn. Besta tillagan væri því að byggja svæðið upp eins og á myndinni hér að neðan.


Ekki eins og Borgartún, ekki eins og Kringluna, ekki eins og Smáralind, Korputorg – ekki eins og Vallarhverfið eða Norðlingaholt, ekki eins og við myndum gera það heldur með því að færa höfnina aftur nær Hafnarstræti og hafa lágreist hús í kringum höfnina. Þarna má sjá sjóinn ná langleiðina inn að Eimskipafélagshúsinu. Það mætti jafnvel flytja Árbæjarsafn niðureftir. Miðborgin er ekki borg – hún er þorp, eins og Seyðisfjörður, Hafnarfjörður, Ísafjörður og Stykkishólmur. Þorpið þarf höfn – sem sæmir þorpi.

Heimild: Eyjan.is