Arnhildur Pálmadóttir arkitekt hefur tekið yfir allt eignarhald og rekstur arkitektastofunnar Lendager á Íslandi.
Arnhildur Pálmadóttir arkitekt hefur tekið yfir allt eignarhald og rekstur arkitektastofunnar Lendager á Íslandi og mun sameina starfsemina undir hatti s.ap arkitekta sem hún stofnaði árið 2018.
„Í verkefnum mínum undanfarið hef ég verið með annann fótinn í nýsköpunar og rannsóknarverkefnum eins og hraunverkefninu Lavaforming en samhliða unnið að arkitektaverkefnum með áherslu á endurnýtingu efna og umbreytingar í arkitektúr og borgarskipulagi,“ segir Arnhildur.
„Ég sé stórt tækifæri í að skapa tengingu á milli ímyndaðra heima framtíðarinnar og þeirra verkefna sem við erum raunverulega að vinna að í dag. Það eflir rannsóknir og nýsköpun sem mannvirkjagerð þarf svo mikið á að halda til að breyta úreltum mengandi kerfum.“
Danska arkitekta- og nýsköpunarfyrirtækið Lendager opnaði stofu á Íslandi árið 2023 og hefur Arnhildur stýrt henni.
Hún segir að félagið hafi í verkefnum síðustu ára byggt upp þverfaglegt tengslanet af samstarfssaðilum, vísindafólki, sérfræðingum, verktökum og fólki úr skapandi greinum.
„Ísland hefur sérstöðu í veðurfari, jarðfræði og í því hvernig við notum efni. Þegar tilgangurinn er að breyta kerfum er mikilvægt að byggja upp þekkingu hér á landi með fólki sem þekkir vel til aðstæðna. Við eins og aðrar þjóðir þurfum að bregðast við þeim breytingum sem eru að verða á veðurfari og náttúru tengt loftslagsbreytingum.“
Heimild: Vb.is












