Fasteignin var auglýst á 1,5 milljarða króna á dögunum.
Fasteignafélagið Kaldalón hefur fengið samþykkt kauptilboð í 2.245 fermetra skrifstofu og iðnaðarhúsnæði að Austurhraun 7 í Garðabæ.
Seljandi er Marel Iceland ehf., samkvæmt fasteignaskrá, en fasteignin stendur við hlið evrópskra höfuðstöðva JBT Marels að Austurhrauni 9.
Viðskiptin eru háð hefðbundnum fyrirvörum, að því er segir í tilkynningu Kaldalóns vegna rekstrarniðurstöðu á fyrstu níu mánuðum ársins. Áætlað er að viðskiptunum ljúki fyrir áramót.
„Fasteignin er mjög vel staðsett í einu öflugasta atvinnuhverfi höfuðborgarsvæðisins.“
Ekki er greint frá kaupverðinu en fasteignin var nýlega auglýst til sölu á 1,5 milljarða króna. Í fasteignaauglýsingu kom fram að húsið, sem var byggt árið 1998, hafi verið endurinnréttað árið 2022.

© Aðsend mynd (AÐSEND)
Tekjur Kaldalóns jukust um 29%
Tekjur Kaldalóns á fyrstu níu mánuðum ársins námu 4,1 milljarði króna og jukust um 28,7% milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu nam 3,2 milljörðum og jókst um 27,5%.
Heildarhagnaður fyrir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins dróst hins vegar saman milli ára, eða úr tæpum 3 milljörðum króna í tæplega 1,6 milljarða, sem skýrist af minni matsbreytingum en á sama tímabili í fyrra.
Eignasafn Kaldalóns var bókfært á tæplega 83 milljarða króna í lok september, en þar af voru fjárfestingareignir upp á 81 milljarð.
Félagið fékk afhentar fasteignir að Krókhálsi 16, Kletthálsi 1A og Skúlagötu 15 á þriðja ársfjórðungi.
Heimild: Vb.is












