Home Fréttir Í fréttum Hálfrar aldar byggðalína orsök víðtæks rafmagnsleysis

Hálfrar aldar byggðalína orsök víðtæks rafmagnsleysis

98
0
Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Forstjóri Landsnets telur grunnorsök þess að rafmagnskerfinu á hálfu landinu sló út megi rekja til hálfrar aldar gamallar byggðalínu. Rafmagnsleysið nú hafi verið alvarlegra en 2019 því meginflutningskerfið hafi bilað að hluta. Orkumálaráðherra segir óásættanlegt að íbúar búi ekki við orkuöryggi

Tvær truflanir virðast hafa hrundið af stað þeirri atburðarás sem gerði hálft landið rafmagnslaust í allt að þrjár klukkustundir í gær. Háspennubilun nálægt álverinu í Reyðarfirði  og bilun á búnaði í álverinu sjálfu.

<>

Guðmundur Ingi Ásmundsson er forstjóri Landsnets.
„Við búum við það að við erum með 50 ára gamla byggðalínu og hún þolir tiltölulega lítið og það er kannski grunnorsökin fyrir því hvers vegna kerfishrunið varð. Byggðalínan þoldi ekki álagið. En auðvitað eru fleiri skýringar líka.“

Endurnýjun á byggðalínunni sem er flutningskerfi raforkunnar  hringinn um landið er hafin en mikið verk er enn óunnið að sögn forstjóra Landsnets.

„Við erum búin að byggja eina línu, Kröflulínu 3 sem tengir saman Fljótsdalsstöð og Kröflu. Tókum hana í notkun í fyrra. Núna á föstudaginn erum við að vígja Hólasandslínu sem er annar áfanginn en síðan þarf að halda áfram  alveg inn í Hvalfjörð.“

Margt hafi lærst eftir ofsaveður og rafmagnsleysi 2019 að sögn Guðmundar Inga en rafmagnsleysið sem varð núna hafi verið af öðrum orsökum. Þá brotnuðu tréstaurar í ofsaveðri  og selta og ísing settist á línur en nú sló rafmagni út en línurnar skemmdust ekki.

„Meginflutningskerfið hélt að mestu leyti en nú var umfangið meira. Það voru truflanir í meginflutningskerfinu sjálfu og afleiðingar því í raun mun umfangsmeiri en 2019.“

Guðlaugur Þór Þórðarson orkumálaráðherra segir rafmagnsleysið áminningu um aðgerðir.
„Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál og minnir okkur á það að við getum ekki tekið orkuöryggi sem gefnu. Við höfum kannski gert það. Okkur finnst þetta bara alveg sjálfsagt.

Við höfum ekki rætt þetta og þetta hefur svo sannarlega ekki verið rætt fyrir kosningar og almennt  í stjórnmálunum.  Það er verk að vinna. Því að þetta kerfi er byggt upp að stærstum hluta fyrir mjög löngu síðan og það er alveg ljóst að við munum þurfa á meiri orku að halda þegar við förum í orkuskiptin og við sættum okkur ekki við það að íbúar landsins sama hvar þeir eru og hverju sinni búi ekki við orkuöryggi.“

Heimild: Ruv.is