Home Fréttir Í fréttum Hafnarfjörður að taka áhættu með stóru knatthúsi Hauka

Hafnarfjörður að taka áhættu með stóru knatthúsi Hauka

94
0
Mynd: Skipulagsstofnun - RÚV
Skipulagsstofnun telur að Hafnarfjarðarbær sé að taka áhættu með því að reisa stórt knatthús steinsnar frá viðkvæmri náttúru eins og fyrirhugað er að gera með knatthúsi Hauka við Ástjörn. Gagnrýnt er að bærinn hafi sett framkvæmdinni þröngar skorður, til að mynda með því að miða stærð hússins við skilyrði til að spila í efstu deild.

Þetta kemur fram í áliti Skipulagsstofnunar á knatthúsinu sem fyrirhugað er að reisa við Ástjörn. Húsið á að vera 11.370 fermetrar og gert er ráð fyrir 900 fermetra þjónustubyggingu.

<>

Tveir kostir hafa verið nefndir til sögunnar, A og B.

Fyrri kosturinn samræmist aðalskipulagi Hafnarfjarðar eftir breytingu sem gerð var fyrir tveimur árum. Samkvæmt því er gert ráð fyrir íbúðabyggð við núverandi íþróttamiðstöð Hauka.

Seinni kosturinn er hins vegar ekki í samræmi við þá breytingu heldur byggður á skipulagi frá 2010. Knatthúsið yrði þá staðsett sunnan við núverandi gervigrasvöll og ekkert yrði af frekari íbúðabyggingu.  Á það hefur verið bent að þessi valkostur sé varla inni í myndinni. Íbúðalóðirnar hafi verið boðnar út og tilboði frá verktakafyrirtækið tekið í mars.

Hafnarfjarðarbær hefur sagt að uppbygging á íþróttasvæðinu sé mikilvæg. Það tryggi samkeppnishæfni svæðisins við önnur sveitarfélög og íþróttafélög að geta boðið upp á gæðaaðstöðu fyrir íþróttastarf.

Skipulagsstofnun segir í áliti sínu að bæjaryfirvöld hafi gert fullnægjandi grein fyrir mótvægisaðgerðum til að fyrirbyggja eins og kostur er að mengunarefni berist í Ástjörn á framkvæmdatíma. Brýnt sé að aðgerðirnar verði kynntar þeim verktökum sem koma til að með að starfa á svæðinu.

Þá segir Skipulagsstofnun mikilsvert að framkvæmdum verði hagað þannig að verndarsvæði tjarnarinnar verði ekki raskað. Að ekki verði unnið með stórvirkum vinnuvélum á þeim tíma ársins sem er viðkvæmastur fyrir lífríkið.

Ljóst er af lestri álitsins að Skipulagsstofnun hefur ýmislegt við knatthúsið að athuga. Fyrirhuguð íþróttamannvirki eru til að mynda talin hafa í för með sér miklar breytingar á landslagi og ásýnd svæðisins. Knatthúsið verði langstærsta mannvirkið í nágrenni tjarnarinnar og gnæfi yfir hana.

Skipulagsstofnun segist jafnframt vera ósammála Hafnarfjarðarbæ um að kostur A sé betri með tilliti til fugla en kostur B.

Á það er bent að knatthúsið verði 25 metra hátt og hafi talsvert neikvæð áhrif á sýn og birtu við Ástjörn. Þá loki það mögulega aðflugsleið fugla. Mat stofnunarinnar er að framkvæmdirnar séu líklegar til að hafa neikvæð áhrif á fuglalíf á og við Ástjörn. Ekki sé heldur ljóst hvernig ýmsir vað- og vatnafuglar bregðist við þegar stór mannvirki hafa risið í nágrenni við Ástjörn.

Skipulagsstofnun telur ennfremur að áhrif framkvæmdanna á ásýnd og landslag verði talsvert neikvæð. Knatthúsið verði langstærsta mannvirkið í nágrenni tjarnarinnar og gnæfi yfir hana. Verði kostur A fyrir valinu verði stórt mannvirki við jaðar fuglafriðlandsins sem hafi möguleg áhrif á flugleið viðkvæmustu fugla.

Stofnunin tekur engu að síður undir með bæði Náttúrufræðistofnun og Umhverfisstofnun um að áhrifin á fuglalífið séu háð óvissu. Þau geti verið óveruleg til talsvert neikvæð.

Að lokum segir Skipulagsstofnun að framkvæmdinni hafi verið settar mjög þröngar skorður. Hún hafi verið bundin við umrætt svæði og stærð knatthússins miðað við skilyrði til að spila í efstu deild.

Þá hafi það ekki verið skoðað nema að mjög takmörkuðu leyti hvort hægt væri að byggja knatthús fyrir Hauka með sem minnstum umhverfisáhrifum. „Þau knatthús sem reist hafa verið á Íslandi til þessa eru með allra stærstu mannvirkjum í hverju sveitarfélagi.“

Skipulagsstofnun er sammála Hafnarfjarðarbæ um að íþróttastarf sé mikilvægt fyrir íbúa bæjarins en það sé jafn mikilvægt að ganga ekki of nærri „verðmætu og viðkvæmu lífríki friðlands Ástjarnar“.  Hafnarfjarðarbær sé að taka áhættu með því að reisa stórt knatthús steinsar frá viðkvæmri náttúru líkt og er ráðgert er.

Álit Skipulagsstofnunar má lesa hér.

Heimild: Ruv.is