Home Fréttir Í fréttum Mesta lækkun á íbúðaverði síðan 2019

Mesta lækkun á íbúðaverði síðan 2019

116
0
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Húsnæðismarkaðurinn er að róast, ef marka má vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu, sem lækkaði um 0,4 prósent á milli mánaða, samkvæmt tilkynningu frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Una Jónsdóttir, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, segir þetta sterka vísbendingu um kólnun á húsnæðismarkaði.

Una segir að spár hafi gert ráð fyrir að hægja myndi á hækkun húsnæðisverðs, en sú lækkun sem nú hafi orðið á milli mánaða hafi komið nokkuð á óvart. Íbúðaverð hefur ekki lækkað á milli mánaða síðan í nóvember 2019 og lækkunin er sú mesta síðan í febrúar 2019.

<>

„Þetta þýðir að við megum alveg gera ráð fyrir því að verðbólga hjaðni hraðar en við höfðum upphaflega gert ráð fyrir. Verðbólga er orðin mjög mikil og húsnæði er einn helsti drifkraftur hennar. Þannig að merki um kólnun á fasteignamarkaði mun þá þýða að verðbólgan fer hraðar niður.“

Aðgerðir farnar að hafa áhrif

Una segir stýrivaxtahækkanir Seðlabankans hafa gert húsnæðisfjármögnun dýrari. Auk þess hafi reglur við lánveitingar verið hertar. Þetta hafi dregið úr eftirspurn á markaðnum og þar með þrýstingi á verðlag. „Það er búið að grípa til þónokkurra aðgerða á síðustu misserum til þess að kæla fasteignamarkaðinn og núna sjáum við þessar aðgerðir vera að hafa áhrif.“

Hún segir of snemmt að segja til um áhrif kólnunarinnar á vaxtaþróun. „Það er alveg líklegt að stýrivextir haldi áfram að hækka, því við erum engu að síður að sjá mjög mikla verðbólgu.

Þó það séu nokkuð skýr merki um að fasteignamarkaðurinn sé farinn að kólna þá er undirliggjandi verðbólguþrýstingur áfram mjög mikill. Það þarf að reyna að ná verðbólgu og verðbólguvæntingum almennilega niður og til þess að það sé hægt þá þarf örugglega að hækka vexti eitthvað áfram. Við erum í vel yfir níu prósent verðbólgu núna áfram næstu mánuði og verðbólgumarkmið Seðlabankans er tvö og hálft prósent.“

Una segist ekki telja ástæðu fyrir þá sem keyptu húsnæði í mestu verðhækkunum að hafa áhyggjur af að tapa peningum að svo stöddu. „Það er bara mikilvægt að halda ró sinni. Þetta er bara einn mánuður og þetta er ekki einhver svakaleg lækkun. Íbúðaverð hefur hækkað mikið og er enn býsna hátt. Þannig að ég held að þetta ætti ekkert að hafa neitt mikil áhrif á þá aðila.“

Heimild: Ruv.is