Home Fréttir Í fréttum Styttist í lengingu hafnargarðs á Akranesi

Styttist í lengingu hafnargarðs á Akranesi

109
0
Hav Saga frá Runavík landaði í byrjun vikunnar stálþili og búnaði fyrir lengingu hafnargarðsins. Ljósm. gj

Á fundi í stjórn Faxaflóahafna 1. september síðastliðinn var kynnt endurskoðuð kostnaðaráætlun fyrir lengingu aðalhafnargarðsins á Akranesi. Heildarkostnaður við verkið er nú áætlaður 1.494 milljónir króna.

<>

Lengi hefur legið fyrir að bæta þurfi hafnargarðinn á Akranesi til að bæta megi aðstæður skipa í höfninni, koma í veg fyrir ókyrrð á borð við sog sem þar myndast í stífri suðvestanátt, og til að auka öryggi almennt.

Stjórn Faxaflóahafna samþykkti áætlunina á fundi sínum 1. september sl. einróma og nú styttist í að framkvæmdir fari í gang.

Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraneskaupstaðar segist fagna þessari ákvörðun stjórnar Faxaflóahafna og kveðst fullviss um að nú fari framkvæmdir brátt að hefjast. „Í þessum áfanga stækkunar hafnarinnar felst m.a. lenging hafnargarðs um 90 metra og sömuleiðis breikkun hans.

Einnig verður höfnin dýpkuð á tveimur stöðum og öldudempun bætt verulega. Eftir breikkun er mögulegt að koma fyrir á hafnargarðinum stóru húsi fyrir hafsækna starfsemi, ef áhugi reynist fyrir slíku,“ segir Sævar Freyr í samtali við Skessuhorn.

Hann segir jafnframt að búið hafi verið að bjóða út hluta verksins, svo sem stálþil vegna lengingarinnar, en vegna stríðsins í Úkraínu og ástands í heiminum hafi orðið tafir.

Nú sé þó búið að tryggja stál í verkið sem verður flutt til landsins um leið og framkvæmdir hefjast. Næsta skref er útboð á framkvæmdinni og kveðst bæjarstjóri vongóður um að nú hylli undir að framkvæmdir við stækkun hafnargarðsins geti hafist.

Heimild: Skessuhorn.is