Ánæsta ári á að verja 134 milljónum til að mæta uppbyggingu á nýju húsnæði fyrir alla viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu en áætlaður heildarkostnaður verkefnisins er 19 milljarðar og er gert ráð fyrir að húsnæðið verði tekið í notkun árið 2027.
Samningur um húsnæðið var undirritaður fyrr á þessu ári en um er að ræða 30 þúsund fermetra lóð fyrir löggæslu- og viðbragðsaðila, svokallaða Björgunarmiðstöð, milli Kleppssvæðisins og Holtagarða.
Fram kom í tilkynningu fyrr á árinu að frá júní 2020 verið unnið að undirbúningi byggingar sameiginlegrar aðstöðu fyrir löggæslu- og viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu, einkum fyrir embætti ríkislögreglustjóra, Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, Landhelgisgæslu Íslands, Tollgæsluna, Neyðarlínuna, Slysavarnafélagið Landsbjörg og yfirstjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
Áætlað er að þörf sameiginlegs húsnæðis fyrir starfsemina sé um 26 þúsund fermetrar. Áformað er að koma þessari almannaþjónustustarfsemi fyrir í nýbyggingu á lóðinni milli Kleppssvæðisins og Holtagarða en Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir mun halda utan um hönnunina og framkvæmdirnar.
64 milljónir í að fjölga nemendum í lögreglunámi
Alls á að verja 21 milljarði af fjárlögum næsta árs til löggæslu en miðstöðin fellur þar undir Önnur verkefni sem fjallað er um í nýju fjármálafrumvarpi eru verkefni eins og að fjölga nemendum í lögreglunámi en gert er ráð fyrir 64 milljónum í það. Þá á að verja 50 milljónum tímabundið til þriggja ára til að mæta tillögum að aðgerðum til að efla rannsókn og saksókn kynferðisbrota, efla forvarnir og þjónustu við þolendur og sama upphæð til þriggja ára til að efla aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi.
285 milljónir í nýtt kerfi
Þá er fjárheimild málaflokksins aukin um 285 milljónir til að mæta innleiðingu komu- og brottfararkerfis Schengen-samstarfsins(e. Entry Exit System) á árunum 2023 og 2024 en um er að ræða nýtt samræmt skráningarkerfi innan Schengen fyrir þá farþega sem eiga uppruna sinn utan Schengen eða Evrópusambandsins og ferðalög þeirra inn í og út úr svæðinu.
Þá lækkar fjárheimild málaflokksins um 365,5 milljónir vegna fjögurra tímabundinna verkefna sem falla niður. Þar er um að ræða 120 milljóna króna tímabundið framlag til að
styrkja lögregluembættin á landsbyggðinni, 145,5 milljónir króna til kaupa á björgunarbátum,
60 milljóna króna til uppbyggingar réttarvörslugáttar og 40 milljóna króna til almannavarna.
Nánar er hægt að kynna sér innihald fjármálafrumvarpsins hér.
Heimild: Frettabladid.is