Fyrir skömmu var hafist handa við nýja viðbyggingu við Hótel Selfoss, en þar er um að ræða fjórðu hæðina ofan á vesturálmu hótelsins. Verktaki er byggingafyrirtækið Jáverk.
„Við ætlum að byggja fjórðu hæðina ofan á með 28 nýjum herbergjum. Þetta er í rauninni kópering á þriðju hæðinni. Herbergin verða mun nútímalegri og glæsilegri. Þau verða frá 24 og upp í 34 fermetrar að stærð,“ segir Ragnar Jóhann Bogason, framkvæmdastjóri Hótel Selfoss.
Ragnar segir þetta verða mikils virði fyrir hótelið m.a. vegna þess að þeir séu með allan infrastrúktúr í þetta eins og t.d. sali, veitingaaðstöðu o.fl. Þetta sé í raun ekki mikill breytilegur kostnaður og verði verulega hagstætt. Jáverk er verktakinn og munu þeir sjá um framkvæmdirnar og skila þessu algjörlega fullbúnu. „Það er þegar byrjað á framkvæmdum og þeir munu afhenda þetta í fyrri hluta júní á næsta ári,“ segir Ragnar.
„Í eldri hluta hótelsins eru funda- og veilsusalir fyrir 400–500 manns. Við erum með Spa veitintgasalinn og nú er komið nýtt veitingahús hérna í húsinu, Kaffi Selfoss. Það þýðir að Gullbarinn okkar verður setustofa og fundaaðstaða fyrir hótelgesti. Eigendur að Hóteli erum við bræður, ég, Gunnlaugur, Ómar og Adolf Guðmundsson. Fjármögnunaraðilarnir sem koma að fjármögnun stækkunarinnar heitir RU ráðgjöf ehf. Þeir unnu þessa fjármögnun með okkur og eru búnir að vinna mjög gott starf,“ sagði Ragnar.
Heimild: Dfs.is