Home Í fréttum Undirskrift samninga utboda Samið um annan áfanga Vestfjarðavegar (60) um Dynjandisheiði

Samið um annan áfanga Vestfjarðavegar (60) um Dynjandisheiði

309
0
Bergþóra Þorkelsdóttir og Dofri Eysteinsson ánægð með samninginn.

Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar og Dofri Eysteinsson forstjóri Suðurverks hf. skrifuðu undir verksamning í húsakynnum Vegagerðarinnar í dag, 17. ágúst 2022. Verkið snýst um nýbyggingu Vestfjarðavegar á um 12,6 km kafla. Tilboð í verkið voru opnuð 5. júlí og átti Suðurverk lægsta boð í verkið upp á um 2,45 milljarða krónur.

<>

Framkvæmdin nær frá Norðdalsá, norðan Bíldudalsgatnamóta, og liggur um hæstu hluta Dynjandisheiðar og norður fyrir sýslumörk. Vegurinn er að mestu leyti byggður í nýju vegstæði en að hluta til í núverandi vegstæði. Inn í verkinu er einnig gerð námuvegar að námu í Trölladal og gerð tveggja áningarstaða.

„Okkur líst vel á þetta, við höfum mikla reynslu af vegagerð á Vestfjörðum og höldum nú áfram á sömu braut. Við erum að bíða eftir tækjum sem eru að koma erlendis frá og munum hefja störf um leið og þau koma,“ sagði Dofri en verktakinn mun nýta veturinn til framkvæmda eins og mögulegt er.

Verkið snýst um nýbyggingu Vestfjarðavegar á um 12,6 km kafla.

„Það er mjög ánægjulegt að geta haldið áfram með þetta verkefni á Dynjandisheiði og við treystum verktakanum sem varð fyrir valinu vel til verksins,“ sagði Bergþóra við undirritunina. Hún telur þessa framkvæmd gríðarlegt hagsmunamál fyrir Vestfirðinga. „Vegurinn er farartálmi í dag enda margir sem eiga jafnvel daglega leið yfir heiðina. Allar þær vegabætur sem nú eru framundan á Vestfjörðum skipta sköpum fyrir þróunina í þessum fjórðungi,“ segir Bergþóra og spáir því að ferðaþjónusta muni aukast til muna þegar framkvæmdum við Vestfjarðaveg verður lokið.

Verkið er hluti af stærri framkvæmd sem hefur staðið yfir undanfarin ár. Tvö verkefni kláruðust í fyrra. Nýr kafli um Dynjandisvog var opnaður í október 2021 og í nóvember það ár var opnaður nýr kafli um Pennusneiðing, Bíldudalsgatnamót og að Norðdalsá en lagt verður slitlag á þann kafla í sumar.

Stefnt er að því að verkinu við annan áfanga Vestfjarðavegar um Dynjandisheiði verði lokið um miðjan júlí 2024.

Heimild: Vegagerðin