Home Fréttir Í fréttum Umsvif Borgarverks aukist verulega

Umsvif Borgarverks aukist verulega

182
0
Óskar Sigvaldason, framkvæmdastjóri Borgarverks. Ljósmynd: Sigurður Bogi Sævarsson

Velta Borgarverks hefur þrefaldast á sex árum. Félagið hyggst greiða út 400 milljónir í arð í ár.
Verktakafyrirtækið Borgarverk hagnaðist um 584 milljónir króna á síðasta ári, samanborið við 370 milljónir árið 2020. Félagið, sem er í jafnri eigu Óskars og Kristins Sigvaldasona, hyggst greiða út 400 milljónir króna í arð í ár. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi félagsins.

Starfsemi Borgarverks hefur stækkað hratt á síðustu árum en velta félagsins hefur meira en þrefaldast frá árinu 2015. Veltan nam ríflega 4,5 milljörðum árið 2021 sem er 30% aukning frá fyrra ári. Í skýrslu stjórnar segir að tekjuvöxtinn megi rekja til aukningar í framkvæmdum, bæði hjá opinberum aðilum og einkaaðilum.

„Líkur eru á að áframhaldandi gangur verði í framkvæmdum á komandi ári. Til þess að mæta örum vexti félagsins í síðastliðnum árum var skipuriti félagsins breytt og ráðnir inn sviðsstjórar.“

Borgarverk sérhæfir sig í vega-, gatna- og hafnargerð auk snjómoksturs. Stærsti viðskiptavinur Borgarverks er Vegagerðin.

Meðalfjöldi starfsmanna á árinu umreiknaður í heilsársstörf var 84 í fyrra samanborið við 73 árið 2020. Laun og launatengd gjöld námu 1,1 milljarði samanborið við 897 milljónir árið áður.

Eignir Borgarverks voru bókfærðar á 3,6 milljarða í árslok 2021, en þar af var um helmingur færður undir vélar og bifreiðar. Eigið fé félagsins nam 2,3 milljörðum króna.

Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Borgarnesi en auk starfsstöðvarinnar á Selfossi er fyrirtækið með skrifstofu í Mosfellsbæ. Í fyrra var starfsemin á Selfossi flutt í nýtt 1.300 fermetra húsnæði að Víkurheiði 6.

Heimild: Vb.is

Previous articleGallar á brúnni rannsakaðir
Next articleOpnun Parliament Hotel tefst enn