Home Fréttir Í fréttum Um fimmtán hundruð íbúðir rísa á Akureyri á næstu árum

Um fimmtán hundruð íbúðir rísa á Akureyri á næstu árum

137
0
Mynd: RÚV / RÚV
Húsnæðisskortur hefur verið á Akureyri um nokkurt skeið, eins og víða á landinu. Nú horfir til betri vegar þar sem áætlað er að um 1500 íbúðir rísi á næstu árum.

Skortur á vinnuafli möguleg hindrun

Á Akureyri hefur uppbyggingin sjaldan verið eins mikil og núna. Nýtt Hagahverfi hefur nú þegar risið, í Holtahverfi er allt að verða klárt og svo eru að fara af stað framkvæmdir í nýju Móahverfi. Halla Björk Reynisdóttir, formaður skipulagsráðs á Akureyri, segir að nú þegar sé búið að gefa leyfi fyrir um 200 íbúðum.

<>

„Í nánustu framtíð verða þær svona um 350 jafnvel 400 íbúðir og svo erum við að fara að setja af stað nýtt hverfi hérna uppi í Móahverfi sem telur frá 900-1100 íbúðir þannig allt í allt er þetta heilmikið,“ segir hún.

Og telur þú að þetta muni vera nóg til að mæta þeirri miklu eftirspurn á húsnæði sem er hérna?

„Þessar lóðir sem eru í boði, já við erum komin með heilmikið framboð núna og fyrirsjáanlegt á næstu árum þannig það á ekki að vera neinn hörgull á því. Það sem getur mögulega tafið er kannski bara skortur á vinnuafli.“

„Skipulagsmál taka tíma“

Í könnun Gallups í byrjun árs kom fram að aðeins fjórðungur Akureyringa var ánægður með skipulagsmál. „Ég held við verðum bara öll að gera okkur grein fyrir því að skipulagsmál taka tíma og það er lögbundið ferli sem tekur tíma og ég held að svona flestir sem eru vanir í þessum byggingarbransa eru vanir því og sætta sig við þetta ferli sem við erum með,“ segir Halla við því.

Vilja geta byggt upp innviði fyrir 300-400 manns á ári

Hún segir áhuga fólks á Akureyri sem búsetustað og til fyrirtækjarekstrar hafa aukist mikið. Eftirspurn eftir húsnæði og lóðum sýni það glögglega. „Við viljum hafa stöðuga fjölgun hér af íbúðum og reynum svona að miða við 300-400 manns á ári, það væri heppilegt fyrir okkur að geta byggt upp innviði fyrir þann mannfjölda,“ segir Halla.

Heimild: Ruv.is