Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Nýbygging Alþingis á áætlun — milljónir sparast í leigu

Nýbygging Alþingis á áætlun — milljónir sparast í leigu

139
0
Mynd: Alþingi / Alþingi
Framkvæmdir við 6400 fermetra nýbyggingu Alþingis ganga samkvæmt áætlun. Hún verður á horni Vonarstrætis og Tjarnargötu og verður tekin í notkun haustið 2023. Kostnaður er áætlaður 5,6 milljarðar. Bylting í starfsemi Alþingis, segir skrifstofustjóri þingsins.

Fyrsta skóflustungan að nýbyggingu Alþingis var tekin 4. febrúar 2020 og voru það skrifstofustjóri Alþingis og Steingrímur J. Sigfússon þáverandi forseti Alþingis sem tóku hana. Í heild verður byggingin 6400 fermetrar, fimm hæðir og tengigangar í önnur hús. Heimilisfangið er Tjarnargata 9, en reiturinn afmarkast af Kirkjustræti, Vonarstræti og Tjarnargötu og mun hýsa nánast alla starfsemi Alþingis.

<>

„Það verður öll starfsemi nefndanna, nefndasviðs, skrifstofur þingmanna og þingflokksherbergi. Auk þess að það verður aðstaða fyrir starfsmenn, síðan mötuneyti og fundarsalir og ráðstefnusalir sem er mjög þarft,“ segir Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri þingsins.

Arkitektastofan Stúdíó Grandi vann hönnunarsamkeppni árið 2016 um hönnun hússins. Framkvæmdir ganga vel og allar hæðir eru komnar. Húsið verður að endingu klætt með Reykjavíkurgrágrýti, Grindavíkurgrágrýti, gabbró, líparít, blágrýti og hraungrýti. Byggingarreiturinn er mjög lítill og olnbogarýmið takmarkað.

Ragna segir nýbygginguna byltingu fyrir starfsemi Alþingis.

„Já heldur betur og nú höfum við starfsemina alla á einum stað. Það er að segja, við erum í mörgum húsum áfram en við erum á einum og sama reitnum. Auk þess sem skiptir miklu eru aðgengismálin. Við munum flytja inn næsta haust áður en nýtt löggjafarþing byrjar og við verðum að gera það,“ segir Ragna.

Þegar nýbyggingin verður tekin í notkun haustið 2023 má segja að húsin við Austurvöll nánast tæmist og þá sparar Alþingi hátt í hundrað milljónir á ári í leigugjöld. Áætlaður kostnaður við bygginguna er 5,6 milljarðar og Ragna segir stefnt að því með öllum ráðum að þær áætlanir gangi eftir.

Heimild: Ruv.is