Aðeins eitt af húsunum fjórum sem Múlaþing og Ofanflóðasjóður keyptu af fólki við Stöðvarlæk eftir skriðuföllin á Seyðisfirði í desember árið 2020, verður fært á öruggt svæði. Ekki er þó enn kominn kaupandi að húsinu. Þá hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvað verður gert við hin þrjú.
„Það er óvíst hvort hin húsin séu í ástandi til flutnings,“ segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings. Vinnuhópur var settur í að meta hvað skyldi gert við húsin og er færslan nú í undirbúningi.
Heimastjórn Seyðisfjarðar hefur lýst yfir áhyggjum af því að húsin standi vannýtt, en Björn segir að sveitarstjórn muni ræða við heimastjórnina um framtíð húsanna, sem standa við Hafnargötu 40b, 42, 42b og 44b. Eru þetta eldri hús sem meðal annars hafa verið löguð með styrkjum frá Minjastofnun.
„Það má nýta húsnæðið sem geymslu en ekki sem íverustað,“ segir Björn en sveitarstjórn bannaði búsetu eftir frumathugunarskýrslu Veðurstofunnar snemma árs 2021.
Húsin fjögur voru keypt af einstaklingum og annað hvort notuð sem heimili, sumarhús eða sem gistirými á Airbnb. Björn segir að hlutur Múlaþings hafi verið hærri en Ofanflóðasjóðs þar sem sveitarfélagið hafi ekki viljað greiða undir fasteignamati fyrir húsin en Ofanflóðasjóður markaðsverð, sem hafi verið lægra.
Heimild: Frettabladid.is