Líkt og greint hefur verið frá síðustu vikur stefnir innviðaráðuneytið á að hefja gjaldtöku í öllum göngum landsins til þess að fjármagna Fjarðarheiðargöng. Formaður bæjarráðs Fjallabyggðar setur spurningamerki við aðferðafræðina.
Sveitarfélagið Fjallabyggð varð til við sameiningu Ólafsfjarðarbæjar og Siglufjarðarbæjar árið 2006. Íbúar sveitarfélagsins treysta á notkun jarðganga til þess að ferðast til annarra sveitarfélaga og á milli þéttbýliskjarna.
Héðinsfjarðargöng sameina Ólafsfjörð og Siglufjörð en til að komast til Fjallabyggðar þarf að notast við einbreiðu göngin Strákagöng og Múlagöng. Mikið ósætti er meðal íbúa sveitarfélagsins vegna fyrirhugaðra aðgerða innviðaráðuneytisins.
„Ég held að fólk sé fyrst og fremst ósátt við það að þurfa að borga fyrir daglegar ferðir sínar á milli byggðakjarna og þjónustukjarna. Hér í utanverðum Eyjafirði erum við í margvíslegu sambandi á milli, bæði innan Fjallabyggðar sem er sjálfsagt, síðan höfum við líka með samstarf við nágranna okkar. Ég held að fólk svíði það að þurfa að borga fyrir það að einfaldlega lifa lífinu,“ segir Guðjón M. Ólafsson, formaður bæjarráðs Fjallabyggðar, í samtali við fréttastofu.
Hann segir íbúa alveg gera sér grein fyrir því að ekkert í lífinu sé ókeypis. Þó setji hann spurningarmerki við aðferðarfræðina á bak við gjaldtökuna.
„Við þekkjum það kannski betur heldur en margir hversu mikilvægt það er að hafa samgöngur. Við sjáum alveg fyrir okkur að það þurfi að fara í innviðafjárfestingar og við fögnum því mjög að ríkisvaldið sé að fara í þessa átt. […] Eðlilegast væri hreinlega að allir íbúar landsins bæru ábyrgð á samfélagslega verkefninu sem innviðauppbygging er,“ segir Guðjón.
Íbúar eru þá einnig ósáttir við það að þurfa að greiða fyrir notkun á göngum sem uppfylla ekki öryggiskröfur. Í Strákagöngum er til dæmis ekki símasamband, göngin eru einbreið líkt og Múlagöng og ekkert eldvarnakerfi er til staðar.
Heimild: Visir.is