Home Fréttir Í fréttum Eftirspurn enn meiri en framboð – nýbyggingar skortir

Eftirspurn enn meiri en framboð – nýbyggingar skortir

120
0
Eftirspurn eftir íbúðum er enn meiri en framboð og það vantar fleiri nýbyggingar, segir framkvæmdastjóri fasteignasölu sem er umsvifamikil á markaðnum. Salan þar var fimmtungi minni í júlí en á sama tíma í fyrra. Íbúðaskortur er helsta ástæðan.

Verð á húsnæði er, eins og kunnugt er, afar hátt og vegur hækkun þess þungt í verðbólgunni, sem nú er 9,9 %. Seðlabankinn hækkaði vexti í júní til að sporna á móti en þá var verðbólgan þó lægri; 7,6 %. Næst er von á yfirlýsingu peningastefnunefndar í þarnæstu viku.

<>

Ósambærilegt við markaðinn 2007

Már Wolfgang Mixa lektor við Háskóla Íslands sagði í Morgunblaðinu og á Morgunvakt rásar eitt í morgun að ekki væri ólíklegt að fasteignaverð myndi lækka, og tók sem dæmi að árið 2007, þegar verð var líka í hæstu hæðum, að þá hafi markaðurinn frosið fyrirvaralaust. Fasteignaverð hefði lækkað um 20% 2007 til tíu og á sama tíma hafi samanlögð verðbólga verið 30%. Og því hafi lækkun fasteignaverðs verið gríðarleg í krónum talið.

„Árið 2007 vorum við með mikið framboð af nýbyggingum. Við vorum með mjög mikið framboð af lánsfé, allt að 100% lán, sem mjög margir gátu tekið. Og svona þær aðstæður, sem voru þá, eru ekki alveg sambærilegar við þær aðstæður sem eru í dag,“ segir Kjartan Hallgeirsson framkvæmdastjóri Eignamiðlunarinnar.

Hann segir að til dæmis séu nú miklu meiri kröfur um að kaupendur hafi eigið fé. Vaxtahækkun Seðlabankans hafi líka haft áhrif á markaðinn núna og að einhverjir hópar eigi erfiðara erfiðara með að kaupa.

Nýbyggingar halda ekki í við fólksfjölgun

„Hins vegar er staðan þannig og mér sýnist að hún verði eitthvað áfram að það eru fleiri kaupendur en seljendur.“

Hvernig var salan núna í júlí miðað við júlí í fyrra?

„Sala í júlí hefur aldrei verið góð og mér sýnist svona alla vega á minni sölu að hún hafi kannski verið svona 20% minni í ár heldur en í fyrra. Það getur ýmislegt komið til þar, helst held ég að það sé nú minna framboð af eignum til að selja.“

Og þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni, það vantar eignir.

„Staðreyndin er sú að okkur hefur bara einfaldlega fjölgað. Það er nú eitt sem að menn minnast ekki á.“

Á Íslandi voru í lok júlí rúmlega 381 þúsund manns búsett. Það eru 66 þúsund fleiri en um áramótin 2007/8. Hagstofan spáir því að 40 þúsund fleiri búi hér eftir fjögur ár eða 420 þúsund manns.

Alltaf verið að byggja sama húsið

„Óskadraumurinn væri að það væri meira framboð af byggingalóðum, sem er auðvitað svo sem gömul tugga, en það er samt sannleikurinn að það sé meira framboð og að það sé fjölbreytileiki í því framboði að það sé ekki alltaf verið að byggja sama húsið.“

Er alltaf verið að byggja sama fjölbýlishúsið, áttu við það?

„Það er svolítið um það í sumum hverfum að það sé alltaf verið að byggja sama húsið og það hlýtur að hafa eithvað með skipulagsákvarðanir að gera.“

Ekkert á leiðinni að springa

Fram að áramótum, á Kjartan ekki von á því að mikið komi á markaðinn af nýbyggingum, en að það breytist á næsta og þarnæsta ári.

„Hins vegar hvort að það sé nóg miðað við fjölgun og eftirspurn, sem er á markaðanum, það eftir að koma í ljós.“

Og það er engin bóla í gangi þótt verðið sé hátt?

„Ég veit ekki hvernig maður skilgreinir þessa bólu en ég sé ekki fram á að það sé nein bóla að fara að springa, ég get ekki séð það.“

Heimild: Ruv.is