Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Framkvæmdir við Hólasandslínu langt komnar

Framkvæmdir við Hólasandslínu langt komnar

56
0
Hafið yfir Laxárdal er það lengsta í línukerfi Landsnets. Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Framkvæmdir við Hólasandslínu, nýja háspennulínu úr Þingeyjarsýslu til Akureyrar, eru langt komnar. Línan fer meðal annars um friðland í Laxárdal þar sem strengja þurfti línuna þúsund metra yfir dalinn.

Framkvæmdir við Hólasandslínu hófust sumarið 2020 og áætluð verklok voru um síðustu áramót, en það gekk ekki eftir meðal annars vegna veðurs.

„Þetta er allt að hafast“

Nú er bosníski verktakinn Elnos að reisa möstur og strengja línu á þremur svæðum; í Bíldsárskarði austan Eyjafjarðar, í Bárðardal og á Fljótsheiði. „Og við erum búin að reisa um 90 prósent af möstrunum og strengja um þrjá fjórðu. Svo þetta er allt að hafast,“ segir Jens Kristinn Gíslason, verkefnastjóri hjá Landsneti.

62 km. loftlína og 10 km. jarðstrengur

Hólasandslína liggur frá tengivirki á Hólasandi og þaðan 72 kílómetra leið að Rangárvöllum við Akureyri. Reist eru 184 háspennumöstur og þá var lagður tíu kílómetra jarðstrengur í Eyjafirði.

Strengdu línuna þvert yfir Laxárdal

Það reyndist snúið að koma línunni yfir Laxárdal sem tilheyrir verndarsvæði Mývatns og Laxár. Ekki má reisa möstur eða önnur línumannvirki í dalnum og því var farin sú leið að strengja línuna þvert yfir Laxárdal.

Þar er nú 1.000 metra langt haf, sem er jafnframt lengsta haf í öllu línukerfi Landsnets. „Þessi kostur var talinn álitlegastur, því með þessari aðferð þá komumst við hjá öllu raski á verndarsvæðinu,“ segir Jens. „Það þurfti engin vinnuvél að fara ofan í dalinn, það voru bara gangandi menn.“

Hann segir áætlað að ljúka framkvæmdum við Hólasandslínu í ágúst og hleypa rafmagni á línuna í byrjun september.

Heimild: Ruv.is

Previous articleBygging leikskóla í Urriðaholti í óvissu
Next articleNý bortækni gæti valdið byltingu í jarðgangagerð