Home Fréttir Í fréttum Íslensk hús þola jarðskjálfta vel

Íslensk hús þola jarðskjálfta vel

231
0
Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Hús hér á landi eru hönnuð til að þola stærstu jarðskjálfta sem geta orðið á hverju landsvæði fyrir sig. Burðarþolsverkfræðingur hjá Eflu segir mun meiri hættu á tjóni vegna lausamuna.

Jarðskjálftahrinan sem staðið hefur yfir á Reykjanesskaga frá hádegi á laugardag veldur eflaust mörgum áhyggjum. Bjarni Jón Pálsson burðarþolsverkfræðingur hjá Eflu segir ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af því að íslensk hús þoli ekki álagið. „Við eigum ekki von á að það hrynji nein hús.“

<>

Bjarni segir að landinu sé skipt í svæði og hús hönnuð með það fyrir augum að þola stærri skjálfta en hægt sé að búast við á hverju svæði. Að baki hönnun búi alls konar útreikningar.

„Í steyptu húsunum eru það járnbindingar í veggjum sem skipta mestu máli að setja það á rétta staði, og hafa nóg af veggjum. Háu húsin fá að sveiflast og þau éta upp orkuna með því að sveiflast en lágu húsin eru gjarnan höfð frekar stíf þannig að þau bara dansa með jörðinni.“

Bjarni segir það jafnframt hafa sýnt sig að eldri hús á Íslandi hafi gott burðarþol og þoli jarðskjálfta vel. Miðað er við jarðskjálfta af stærðinni rúmlega sex á höfuðborgarsvæðinu en á Suðurlandi og Húsavík og nágrenni sé reiknað með enn stærri skjálftum.

Það geti verið að einhvers staðar erlendis séu byggð hús sem ekki hefðu þolað skjálfta á borð við þá stærstu í hrinunni nú en Bjarni ítrekar að engin ástæða sé til að hafa áhyggjur af húsum hérlendis. „Það er meira kannski hætta af einhverjum lausamunum, svona einhverju sem getur dottið. Það er það sem alltaf er verið að hamra á, að fólk hugi að því að festa svona lausamuni.“

Heimild: Ruv.is