Home Fréttir Í fréttum Enn ráðgert að opna nýjan leikskóla í Fellabæ í næsta mánuði

Enn ráðgert að opna nýjan leikskóla í Fellabæ í næsta mánuði

283
0
Mynd: Austurfrett.is

„Við ráðgerum að opna skólann þann 20. september, taka inn 40 börn í fyrstu atrennu og svo er hugmyndin að bæta við fleiri börnum strax um áramótin,“ segir Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings.

<>

Óðum styttist í opnun glæsilegs nýs leikskóla í Fellabæ en framkvæmdir við skólann hafa staðið yfir í tæpt ár og þær gengið að óskum. Áætlaður heildarkostnaður við verkið eru tæplega 400 milljónir króna.

Töluverð vinna er enn eftir til að hægt sé að opna á tilsettum tíma en áður var búið að fresta opnuninni um einn mánuð frá upprunalegri áætlun. Rafvirkjar eiga enn eftir að koma fyrir og tengja flest ljós, vegg- og gólfefni vantar að stórum hluta auk þess sem allnokkur jarðvinna er enn eftir fyrir utan nýja skólahúsið svo börnin geti leikið sér vandræðalaust.

Innandyra í nýjum glæsilegum leikskóla sem risinn er í Fellabæ. Rúmar sex vikur í að skólinn opni formlega en töluvert ógert ennþá. Mynd: Austurfrett.is

Að sögn Jónínu mun byggingarnefnd skólans hittast innan tíðar og fara yfir stöðuna en hún segir engin alvarleg vandræði koma upp ef ekki næst að opna á tilsettum tíma.

„Alls ekki. Við erum auðvitað með starfandi leikskóla á staðnum og ef einhverra hluta vegna verða tafir þá finnum við lausnir á því þegar þar að kemur. Sjálf hef ég bara heyrt að verktakarnir séu bjartsýnir á að þetta gangi allt upp.“

Heimild: Austurfrett.is