Lagt er til að höfuðstöðvar nýs húsnæðislánafélags og nýrrar húsnæðisstofnunar verði á Sauðárkróki, í skýrslu landshlutanefndar Norðvesturlands. Ráðherra húsnæðismála segir bollaleggingar af þessu tagi „dúllulegar“.
Skýrslan var birt ríkisstjórninni þann 12. desember en Fréttablaðið hefur greint frá efni skýrslunnar. Í dag er sagt frá tillögu nefndarinnar um að staðsetja hina nýju stofnun á Sauðárkróki. Ekki hefur verið lagt mat á það í skýrslunni hversu margir starfsmenn myndu vinna við hina nýju stofnun, en að þessi störf bætist við þau 130 opinberu störf sem nefndin hefur lagt til að færð verði í landshlutann.
Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, bendir á þá staðreynd að engin ákvörðun hafi verið tekin um staðsetningu stofnunarinnar, enda hafi henni ekki enn verið komið á laggirnar. Það sé á endanum Alþingi sem taki ákvörðunina. Á Facebook síðu sinni segir Eygló:
“Dúlluleg frétt af stofnunum á mínum vegum sem eru ekki til, engin ákvörðun liggur fyrir um tilurð þeirra -þaðan síður hvar þær eigi að vera staðsettar,“
skrifar ráðherrann sem jafnframt býður vinum sínum að koma með uppástungur að staðsetningu. Ekki stendur á svörunum og hafa þegar borist uppástungur á borð við Egilsstaði, Kópavog, Reykjanesbæ, Selfoss, Hafnarfjörð og Voga.