Home Fréttir Í fréttum Ráðherra boðar bráðaaðgerðir vegna stöðu iðnnáms

Ráðherra boðar bráðaaðgerðir vegna stöðu iðnnáms

195
0

Menntamálaráðherra hefur gefið út að hann hyggist bregðast við erfiðri stöðu í iðnnámi með bráðaaðgerðum sem komi til framkvæmda í ágúst. Með þeim hyggst hann bregðast við þeirri stöðu að vísa hefur þurft mörg hundruð umsækjendum frá námi árlega.

<>

Tækniskólinn og Samiðn lýstu í gær yfir áhyggjum af stöðu iðnnáms. Mikil eftirspurn er eftir iðnnámi en skólarnir hafa ekki getað tekið við nema hluta umsækjenda.  Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, segir í viðtali á RÚV að hann hafi sett af stað starfshóp í júní, í samstarfi við verknámsskólana og aðila vinnumarkaðarins.

„Með það að markmiði að í fyrsta lagi átta sig á því hversu margir raunverulega það eru sem eru ekki að fá skólavist. Svona miðað við fyrstu tölur sem við fengum, en fáum ekki endanlega fyrr en í ágúst, að þá reiknum við með að það séu í kringum 500 nemendur,” er haft eftir Ásmundi Einari. Til standi að skoða hvers vegna nemendur fá ekki skólavist; hvort það tengist undirbúningi á grunnskólastigi, kennsluaðstöðu eða skorti á fjárveitingum.

„Við reiknum með að bregðast við þessu með bráðaaðgerðum, vegna þess að við viljum sannarlega að sem flestir sem vilja komast í iðnnám komist í það nám,“ segir hann. Ásmundur segir að ljóst sé að þörf sé á iðnmenntuðu fólki.

„Nú ætlum við okkur í aðgerðir til þess að gera öllum þeim mikla fjölda sem hefur áhuga á að fara í þetta nám kleift að gera það og þar þurfum við að vera tilbúin að hugsa út fyrir boxið og ég hefði ekki sett þennan hóp af stað eða vinnu af stað nema til þess með þau skilaboð að hugsa út fyrir boxið og finna lausnir og leiðir og mér finnst þetta klárlega eitt af því sem að eigi að skoða,” segir hann.

Heimild: Samiðn.is