Home Fréttir Í fréttum Lágt fast­eigna­mat hindri fram­kvæmda­lán úti á landi

Lágt fast­eigna­mat hindri fram­kvæmda­lán úti á landi

247
0
Almar Marinósson á Þórshöfn gagnrýnir bankakerfið. Mynd/BjörnÞorláksson

Ósanngjarnt er að íbúi á höfuðborgarsvæðinu fái miklu hærra framkvæmdalán en eigandi svipaðrar eignar fjarri borginni, segir Þórshafnarbúi. Sláandi munur er á fasteignamati eftir landshlutum.

<>

Langanesbyggð Almar Marinósson, íbúi á Þórshöfn, gagnrýnir að bankar í eigu ríkisins miði útlán við fasteignamat en ekki brunabótamat þegar bankarnir ákveða lánsfjárhæð til framkvæmda á húsnæði.

Í landi þar sem verðmunur á sambærilegri eign geti verið hundrað milljónir króna milli landsvæða segi sig sjálft að illa gangi fyrir margt fólk úti á landi að fá framkvæmdalán ef vilji stendur til umbóta.

„Við ætlum að fara í kostnaðarsamar framkvæmdir á okkar heimili hér á Þórshöfn, húsi sem við fjárfestum í fyrir nokkrum árum. Ég vildi taka lán til að geta framkvæmt mikið á stuttum tíma. Ég er borgunarmaður fyrir láninu, það sýnir nýlegt greiðslumat, en samt fæ ég ekki lánað það sem mig vantar. Ástæðan er lágt fasteignamat,“ segir Almar.

Hann segir himin og haf milli markaðsvirði eigna víða úti á landi og í Reykjavík en ef kvikni í sambærilegum eignum kunni lítill munur að vera metinn á raunvirði eignanna og greiðsla bóta taki mið af því.

Ég sé ekki áhættu bankanna við að lána mér fyrir framkvæmdum á forsendumfa brunabótamats, fremur en fasteignamats.

Almar leggur því til að bankarnir hætti að miða við fasteignamat þegar þeir taki ákvarðanir um útlán vegna framkvæmda við húsnæði. Réttmætara væri að miða lán við brunabótamat.

„Ég á fasteign sem byggð var 1977, einbýlishús að stærð 234 fermetrar. Fasteignamatið er 25 milljónir króna, já, þannig er að búa svona langt frá höfuðborgarsvæðinu. En samræmt brunabótamat á húsinu er yfir hundrað milljónum; endurbygging hússins. Heildar veðheimild er þó ekki meira en 17,5 milljónir. Ef húsið væri á höfuðborgarsvæðinu fengi ég sennilega hæglega 70 milljónir, stæðist ég greiðslumat til þess,“ segir Almar.

Að sögn Almars ættu forsendur hins opinbera ekki að byggja á huglægu mati heldur vel ígrunduðum forsendum um að halda landinu öllu í byggð.

„Ég sé ekki áhættu bankanna við að lána mér fyrir framkvæmdum á forsendum brunabótamats, fremur en fasteignamats. Greiðslumat okkar sýnir það. Það eru sömu kröfur um greiðslumat á Þórshöfn og á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Almar.

Forsendur fasteignalána eru almennt veð í 70 prósentum af fasteignamati viðkomandi fasteignar.fra

Ef eign brennur eða eyðileggst í náttúruhamförum er ekki gengið út frá markaðsvirði þegar kemur að bótum heldur er notast við brunabótamat. Það mat var samræmt á landsvísu fyrir allmörgum árum, því talið var eðlilegast að fólk ætti að geta komið þaki yfir höfuðið aftur með því að byggja á sama stað og húsið brann eða eyðilagðist. Almar telur af ofantöldu eðlilegra að brunabótamat ráði lántökufjárhæð er kemur að ákvörðunum um framkvæmdalán, ekki fasteignamat.

Heimild: Frettabladid.is