Norður-Kórea gæti aðstoðað Rússa við uppbyggingu í Donetsk og Lúhansk héruðum með því að senda verkamenn til héraðanna. Þetta segir sendiherra Rússa í Norður-Kóreu en refsiaðgerðir Sameinuðu þjóðanna banna það. NK News greinir frá þessu.
Sendiherra Rússa í Norður-Kóreu, Alexander Matsegora sagði Norður-Kóreu sjá tækifæri í því að hjálpa Rússum að endurbyggja héruðin.
Donetsk og Lúhansk eru þau tvö héruð sem hafa komið hvað verst úr stríðinu í Úkraínu. Rússar hafa herjað á héruðin og náð nánast fullri stjórn á þeim.
Matsegora sagði í samtali við rússneskan fjölmiðil að vel þjálfaðir verkamenn á vegum Norður-Kóreu sem eru færir um að vinna í erfiðum aðstæðum gætu komið að góðum notum í uppbyggingu á innviðum svæðanna.
Senda verkamenn í lélegar aðstæður
Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa stundað það að selja verkamenn til erlendra landa þar sem þau vinna í lélegum aðstæðum. Sameinuðu þjóðirnar bönnuðu ríkjum að stunda slík viðskipti við Norður-Kóreu árið 2016.
Það bann tók gildi árið 2019 en Rússland, Kína, Laos og Víetnam hafa hunsað þetta bann.
Utanríkisráðuneyti Norður-Kóreu gaf út yfirlýsingu þar sem þau segja Úkraínu ekki geta ráðist að sjálfstæðum þjóðum án þess að komast upp með það. Úkraína væri ósanngjörn í samskiptum sínum við stjórnir Donetsk og Lúhansk og eð þau væru að taka þátt í óréttlátri og ólöglegri utanríkisstefnu Bandaríkjanna.
Norður-Kórea viðurkenndi sjálfstæði Donetsk og Lúhansk í síðustu viku. Yfirvöld í Úkraínu voru ekki ánægð með ákvörðun yfirvalda Norður-Kóreu en utanríkisráðuneyti beggja ríkja reiddust út í hvort annað í kjölfarið.
Segir Rússa ekki eiga neina bandamenn
Utanríkisráðherra Úkraínu, Dmytro Kuleba, brást við yfirlýsingu Norður-Kóreu með því að slíta öllum diplómatískum tengslum sem Úkraína átti með Norður-Kóreu. Hann sakaði Norður-Kóreu um að reyna að grafa undan fullveldi Úkraínu.
Kuleba sagði það ljóst að Rússland ætti ekki neina bandamenn eftir í heiminum, það væri bersýnilegt vegna þess að þeir sækja eftir stuðning til Norður-Kóreu. Það væru einungis lönd sem treysta á Rússa efnahagslega sem styðja þá.
Einungis þrjú ríki viðurkenna sjálfstæði Donetsk og Lúhansk, en það eru Rússar, sem gerðu það í upphaf innrásarinnar í Úkraínu, síðan eru það Sýrland og Norður-Kórea sem viðurkenndu sjálfstæði héraðanna í lok júní og fyrir tveimur vikum.
Heimild: Frettabladid.is