Ökumaður á leið úr Hafnarfirðinum til Keflavíkur var snarbrugðið þegar að sprenging vegna framkvæmda rétt við veginn varð til þess að grjóti og hnullungum rigndi yfir bíla sem áttu leið um Reykjanesbrautina.
Til allrar hamingju varð bíllinn hans ekki fyrir tjóni enda í ágætri fjarlægð frá atvikinu en aðrir sem voru nær voru ekki jafn heppnir.
Að sögn ökumannsins, sem vill ekki koma fram undir nafni, hemluðu bílarnir þegar sprenging varð. Stór hvellur kom og í kjölfarið reis upp moldarstrókur og grjót þeyttist út á veginn.
Telur ökumaðurinn nokkuð víst að sprengingin hafi verið um tvo til þrjá metra frá Reykjanesbrautinni og segir hann bíla sem voru í línu við sprenginguna hafa endað með grjót á þaki og vélarhlífum.
Telur hann nokkuð öruggt að eitthvað hafi séð á þeim eftir atvikið. Hins vegar sá hann engar brotnar rúður og segir ekkert slys hafa átt sér stað þegar bílarnir hemluðu á veginum.
Ekki hafa fengist upplýsingar hjá lögreglunni í Hafnarfirði um atvikið.
Heimild: Mbl.is