Home Fréttir Í fréttum Verð­hækkanir farnar að bíta í byggingageiranum

Verð­hækkanir farnar að bíta í byggingageiranum

279
0
Verð á steypustyrktarstáli hefur hækkað um 260 prósent á tveimur árum. Fréttablaðið/Anton Brink

Verktakar glíma við gríðarlegar Bygg á byggingarefni í kjölfar heimsfaraldurs og stríðs í Úkraínu. Verð á stáli hefur nærri þrefaldast á tveimur árum og útlit er fyrir að endurskoða þurfi gerða samninga um stærri framkvæmdir.

<>

Miklar hækkanir á hrávörumörkuðum hafa leitt til mikilla verðhækkana á byggingarefni undanfarna mánuði og ár. Þá hafði heimsfaraldurinn jafnframt þau áhrif að helstu aðfangakeðjur rofnuðu.

Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri Jáverks, segir verktaka aldrei hafa séð viðlíka hækkanir í greininni. Sviptingar erlendis hafi haft gríðarleg áhrif á allar framkvæmdir.

Fyrr á árinu var útlit fyrir að tafir yrðu á nær öllum framkvæmdum vegna þess hve erfiðlega gekk að útvega byggingarefni, aðallega stál.

„Við erum búin að leysa það í bili, sem betur fer. Við erum með stál sem dugar okkur út þetta ár að minnsta kosti. Nær allt það kamb­stál sem áður barst til landsins frá Hvíta-Rússlandi kemur nú frá löndum eins og Póllandi og Tyrklandi og það hefur gengið nokkuð vel að opna nýjar gáttir í stað þeirra sem þornuðu upp.“

Samkvæmt Gylfa eru það verðhækkanirnar, frekar en afhending, sem geri verktökum erfitt fyrir um þessar mundir.

„Ef við tökum sem dæmi kamb­stál, sem flestir kalla steypustyrktarstál, þá hefur það hækkað um 260 prósent á tveimur árum. Steypa hefur sömuleiðis hækkað og ál, sem notað er í klæðningar, hefur tvöfaldast í verði yfir tveggja ára tímabil. Þetta eru hækkanir sem eiga sér vart fordæmi og alveg ljóst að þetta hefur áhrif á allar okkar framkvæmdir.“

“Verðið sem við fáum fyrir tiltekin verkefni er umtalsvert lægra en verðið sem við þurfum að borga fyrir byggingarefni”

Það eina sem vegur eilítið upp á móti nýlegum hækkunum, að mati Gylfa, er að verðhækkanir sem orðið hafa á timbri virðast að einhverju leyti vera að ganga til baka. Engu að síður sé óhjákvæmilegt að hækkanir hafi áhrif á gerða samninga.

„Við erum bundin samningum í okkar verkefnum, eins og eðlilegt er. Tölurnar sem þar er að finna eru auðvitað ekki í neinum takti við þessar verðhækkanir. Með öðrum orðum, verðið sem við fáum fyrir tiltekin verkefni er umtalsvert lægra en verðið sem við þurfum að borga fyrir byggingarefni. Það er staðan sem blasir við okkur í dag.“

Gylfi segir krefjandi að fá dæmið til að ganga upp við slíkar aðstæður.

„Auðvitað er þetta misjafnt eftir verkefnum og veltur á því hversu langt þau eru komin. En það er alveg ljóst að þessar verðhækkanir þýða að allar fyrri kostnaðarforsendur eru brostnar.“

Við slíkar aðstæður skipti máli að halda sjó og tryggja góða verkefnastöðu.

„Það hefur gengið vel undanfarin ár og mörg fyrirtæki eru vel í stakk búin til að takast á við þessar áskoranir. Almennt séð held ég að menn hafi ekki alveg gert sér grein fyrir hvað þessar sviptingar úti í heimi myndu hafa víðtæk áhrif,“ segir Gylfi.

Heimild: Frettabladid.is