Home Fréttir Í fréttum Íbúðauppbygging í Hnoðraholti fyrir lok ársins

Íbúðauppbygging í Hnoðraholti fyrir lok ársins

515
0
Jarðvinnuframkvæmdir eru í fullum gangi í Hnoðraholti þessa dagana. Fyrstu íbúðaframkvæmdir í nýju hverfi munu líklegast hefjast á þessu ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jarðvinna og gatna­gerð er nú í full­um gangi í Hnoðraholti í Garðabæ, en bú­ist er við að fyrstu bygg­inga­fram­kvæmd­ir á svæðinu hefj­ist í vet­ur. Í fram­hald­inu verður svo út­hlutað fleiri lóðum á svæðinu. Alm­ar Guðmunds­son, bæj­ar­stjóri í Garðabæ, seg­ir að fyrstu íbúðir á svæðinu gætu farið að detta í al­menna sölu seinni hluta árs 2024 eða á fyrri hluta árs­ins 2025.

<>

Sam­tals eru þrjú svæði sem ná frá Arn­ar­nes­vegi og að Víf­il­stöðum sem nú er horft til þess að fari í upp­bygg­ingu á kom­andi árum, en áformað er að þar verði byggðar á bil­inu 1.700 til 2.000 íbúðir í það heila, auk at­vinnu­hús­næðis, skóla, leik­skóla, bú­setukjarna fyr­ir fatlaða og fleiri íþrótta­mann­virkja til viðbót­ar við Miðgarð sem hef­ur þegar risið í Vetr­ar­mýri. Til sam­an­b­urðar er þetta ör­lítið minna af íbúðum en eru í öllu Urriðaholti.

Svæðið skipt­ist upp í Vetr­ar­mýri, Hnoðraholt suður og Hnoðraholt norður, en það er á síðast­nefnda svæðinu þar sem bú­ast má við fyrstu íbúðafram­kvæmd­un­um, en fljót­lega í kjöl­farið seg­ist Alm­ar von­ast til þess að fram­kvæmd­ir í Vetr­ar­mýri, þar sem verktak­inn Arn­ar­hvoll fékk fimm reiti í des­em­ber á síðasta ári í útboði, en sam­tals greiddi fé­lagið 3,3 millj­arða fyr­ir reit­ina.

Alm­ar Guðmunds­son, bæj­ar­stjóri Garðabæj­ar. mbl.is/​Arnþór

Upp­bygg­ing 200 íbúða fari fljót­lega af stað

Hnoðraholt norður er það svæði sem nær frá nú­ver­andi byggð í suðvest­ur hlíð Hnoðraholts að Arn­ar­nes­vegi og svo norðan meg­in á holt­inu að landa­mær­um Kópa­vogs og Garðabæj­ar þar sem Kópa­vog­ur hef­ur þegar byggt Þorra­sali.

Á hring­torg­inu við Arn­ar­nes­veg sem er fyr­ir ofan Linda­hverfið hef­ur verið sprengt inn í klett­ana og gerð aðkoma fyr­ir veg inn í hverfið, en sá veg­ur mun svo tengj­ast yfir holtið og niður í Vetr­ar­mýri og sam­ein­ast veg­in­um Vetr­ar­braut.

Verður þetta jafn­framt aðal­veg­ur­inn í gegn­um þessi nýju hverfi sem eiga eft­ir að byggj­ast upp. Of­ar­lega á hæðinni verður svo þver­braut frá Vetr­ar­braut sem fær nafnið Vor­braut, en at­hygli vek­ur að Vor­braut mun liggja í austurátt og tengj­ast inn í Þorra­sali í Kópa­vogi og þar með tengja hverf­in tvö sem eru í sitt hvoru sveit­ar­fé­lag­inu án þess að það fari í gegn­um aðal­braut­ir eins og oft hef­ur verið venj­an á höfuðborg­ar­svæðinu hingað til.

Sex reit­ir í norðvest­ur­hluta Hnoðraholts norður, sá hluti sem er norðan við nú­ver­andi byggð og næst upp­lyfta hring­torg­inu yfir Reykja­nes­braut, er að hluta til í eigu einkaaðila, en þeir reit­ir verða við nýju göt­una Þorra­holt (at­huga að rugla hér ekki sam­an Þorra­holti og Þorra­söl­um). Alm­ar seg­ir að unnið sé með lóðaeig­end­um að skipu­lagi reit­anna, en að þar sé gert ráð fyr­ir nokkr­um fjöl­býl­is­hús­um með sam­tals um 200 íbúðum.

Deili­skipu­lag fyr­ir Hnoðraholt norður. Reykja­nes­braut­in er lengst til vinstri á mynd­inni og Arn­ar­nes­veg­ur efst. Nýr veg­ur með nafn­inu Vetr­ar­braut sker hverfið og ligg­ur niður í Vetr­ar­mýri. Bláu hús­inu eru nú­ver­andi byggð og Þorra­holt er vest­an við Vetr­ar­braut. Fyr­ir aust­an hana og í átt að nú­ver­andi byggð í Þorra­söl­um (hægra meg­in á mynd­inni) verða lág­reist­ari fjöl­býl­is­hús, ein­býl­is­hús og raðhús. Við hring­torgið í miðju mynd­ar­inn­ar er svo gert ráð fyr­ir leik­skóla og bú­setukjarna fyr­ir fatlaða, en þar fyr­ir sunn­an kem­ur Hnoðraholt suður

Aust­ar á svæðinu, upp á holtið og í átt að Þorra­söl­um í Kópa­vogi, verða svo minni fjöl­býl­is­hús, ein­býl­is­hús og raðhús sam­kvæmt skipu­lag­inu, sam­tals með öðrum 200 íbúðum. Efst á hæðinni, á milli Hnoðraholts norður og þess svæðis sem verður Hnoðraholt suður, er svo áformað að reisa bæði leik­skóla og bú­setukjarna fyr­ir fatlaða, en þetta er nú í skipu­lags­ferli.

Úthlut­un á næsta ári

Alm­ar seg­ir að unnið sé með einkaaðilun­um sem eiga Þorra­holt og að hann eigi von á að fyrstu íbúðir á öllu svæðinu muni rísa þar. Tel­ur hann lík­legt að fram­kvæmd­ir geti haf­ist í vet­ur, öðru hvoru meg­in við ára­mót. Fljót­lega í kjöl­farið tel­ur hann að upp­bygg­ing Arn­ar­hvols geti haf­ist í Vetr­ar­mýri og að fyrstu íbúðir í Þorra­holti gætu farið að detta á markaðinn árin 2024 og 2025.

Að sögn Alm­ars er svo áformað að ljúka allri jarðvinnu, gatna­gerð og lagna­vinnu um haustið 2023. Seg­ist hann gera ráð fyr­ir að á svipuðum tíma, eða á seinni hluta næsta árs verði farið í út­hlut­un á lóðum á svæðinu. Eins og jafn­an er með fjöl­býl­is­hús er útboð þeirra lóða miðað að verk­tök­um, en með sér­býl­islóðirn­ar verður lík­lega horft til ein­stak­linga að sögn Alm­ars.

Stór­virk­ar vinnu­vél­ar í fram­kvæmd­um í Hnoðraholti í vik­unni. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Horfi til ungs fólks og eldra fólks sem vill minnka við sig

„Með sér­býli í Hnoðraholti, það ligg­ur beinna við að út­hluta þar til ein­stak­linga frek­ar en til verk­taka,“ seg­ir Alm­ar. Spurður hvort farið verði í al­menna út­hlut­un, útboð eða út­hlut­un eft­ir sér­stök­um áhersl­um seg­ir Alm­ar að ekki hafi enn verið tek­in ákvörðun um hvernig ferlið verði ná­kvæm­lega.

Hann seg­ir bæj­ar­stjórn­ina hafa áhuga á að horfa sér­stak­lega til ungs fólks sem er að kom­ast inn á markaðinn, en einnig til eldra fólks sem er að minnka við sig. Hann tek­ur þó fram að alltaf þurfi að fara var­lega þegar um svona mál sé að ræða. „Lóðir eru gríðarleg verðmæti og það þarf að halda vel á spil­un­um.“ Seg­ir hann að passa þurfi að í svona til­fell­um sé út­hlutað til raun­veru­legra not­enda og að fólk fái ekki eign­ir á af­slátt­ar­kjör­um og geti svo snúið sér við og selt eign­ina með hagnaði. „Þetta er mjög vanda­samt,“ seg­ir Alm­ar.

Skipu­lag 700 íbúða í suður­hlíðum fari af stað 2024-25

Eins og fyrr hef­ur komið fram munu fyrstu íbúða- og at­vinnu­húsa­fram­kvæmd­ir í Vetr­ar­mýri hefjast á svipuðum tíma og í Hnoðraholti norður, en Alm­ar seg­ir að í kjöl­farið verði farið í skipu­lags­vinnu við Hnoðraholt suður. Það er þá það svæði sem ligg­ur frá efstu brún holts­ins og niður í átt að Miðgarði og svo út hlíðina fyr­ir ofan golfsvæði GKG.

Seg­ir Alm­ar að sú vinna gæti haf­ist af krafti 2024-2025 og ef vel gangi gæti það tekið 1-2 ár, en það fari alltaf eft­ir því hvort eitt­hvað verði um kær­ur vegna skipu­lags­ins o.s.frv. „Við horf­um á þetta sem heild­rænt ferli. Þetta er heilt grunn­skóla­hverfi og þá skipt­ir máli að upp­bygg­ing­in sé jöfn og þétt og að leik­skól­ar og skóli bygg­ist jafnt upp.“

Alm­ar seg­ir að þar sé horft til þess að reisa um 700 íbúðir og verður það hverfi því tals­vert fjöl­menn­ara en Hnoðraholt norður. Tals­verður halli er á þessu svæði og seg­ir hann að horft sé til þess að hafa sér­býli efst og neðst og svo fjöl­býl­is­hús í miðri hlíðinni þar sem halli er mest­ur.

Áður en fram­kvæmd­ir á Hnoðraholti hóf­ust hafði verið gert ráð fyr­ir teng­ingu inn á Arn­ar­nes­veg­inn við hring­torgið. Í dag hef­ur verið sprengt fyr­ir veg­in­um og standa nú fram­kvæmd­ir upp á holt­inu yfir. Ljós­mynd/​Garðabær

600-800 íbúðir í Vetr­ar­mýri

Í nú­ver­andi deili­skipu­lagi fyr­ir Vetr­ar­mýri er nú gert ráð fyr­ir 664 íbúðum, en Alm­ar seg­ir að áfram verði unnið með það og þar gætu orðið allt að 800 íbúðir. Auk þess verður þar eitt­hvað um at­vinnu­hús­næði, auk bíla­stæðahúss sem verður bygg inn í kant­inn við Reykja­nes­braut­ina og seg­ir Alm­ar að það gæti virkað sem ákveðin hljóð- og sjón­vörn.

Þeir sem eiga leið um Reykja­nes­braut­ina fram­hjá Vetr­ar­mýri taka í dag helst eft­ir íþrótta­hús­inu Miðgarði sem hef­ur risið þar á und­an­förn­um miss­er­um. Alm­ar seg­ir að það verði þó ekki eina íþrótta­húsið, því knatt­spyrnu­leik­vang­ur og  fleiri íþrótta­hús verði á svæðinu. „Það verður al­veg heil­mik­il íþróttamiðstöð þarna og mikið íþrótta­líf.“

Á milli Vetr­ar­mýri og Hnoðraholts suður, neðarlega í hlíðinni, er svo gert ráð fyr­ir nýj­um grunn­skóla. Alm­ar seg­ir að þar sé reiknað með því að það verði grunn­skóli fyr­ir allt grunn­skóla­stigið, en þó hafi eng­in ákvörðun verið tek­in um það. Hann hins veg­ar bend­ir á að í Urriðaholts­skóla séu nú nem­end­ur upp í 8. bekk og að það muni á næstu árum trapp­ast upp í 10. bekk. Með hliðsjón af því að þessi hverfi verði svipað stór og Urriðaholtið seg­ir hann að lík­lega verði grunn­skóla­fyr­ir­komu­lagið svipaða.

Skipu­lag fyr­ir Vetr­ar­mýri. Eins og sjá má er gert ráð fyr­ir knatt­spyrnu­velli og auka íþrótta­húsi. Þá er gert ráð fyr­ir teng­ingu yfir Reykja­nes­braut­ina með brú.

Vill góða þjón­ustu al­menn­ings­sam­ganga

Nú­ver­andi upp­bygg­ing­ar­hug­mynd­ir borg­ar­línu gera ekki ráð fyr­ir að hún nái meðfram Reykja­nes­braut­inni og fer hún því ekki fram­hjá bæði þess­um nýju hverf­um og Urriðaholti.

Spurður út í þetta og hvernig hann sjái fyr­ir sér fyr­ir­komu­lag al­menn­ings­sam­ganga seg­ir Alm­ar ljóst að þessi hverfi séu ekki beint inn á áhrifa­svæði borg­ar­línu en að hins veg­ar verði sér­stak­lega horft til þess að þau verði þjón­ustu vel með al­menn­ings­sam­göng­um. Bend­ir hann á að Kópa­vog­ur sé einnig að byggja þarna meðfram Reykja­nes­braut­inni og Hafn­ar­fjörður hafi að ein­hverju leyti einnig gert það og því þurfi að huga vel að þessu.

Varðandi aðrar teng­ing­ar bend­ir Alm­ar á að það sé hug­mynd um jarðbrú yfir Reykja­nes­braut­ina til að tengja bæj­ar­hlut­ana bet­ur sam­an. Er það í takt við hug­mynd­ir í Kópa­vogi þar sem vilji hef­ur verið til að tengja sam­an Linda­hverfið og Smára­hverfið með loki yfir veg­inn á kafla.

Stefnu­mót­un fyr­ir Víf­ilstaði

Það svæði sem hér hef­ur verið rætt er hluti þess sem oft hef­ur verið kallað Víf­ilstaðaland í skipu­lagi. En hvað með Víf­ilstaði sjálfa? Alm­ar seg­ir að þar sé einnig horft til upp­bygg­ing­ar til framtíðar. „Við sjá­um fyr­ir okk­ur upp­bygg­ingu þar og þá m.a. í formi sam­fé­lagsþjón­ustu og heil­brigðisþjón­ustu.

Sam­hliða þess­ari upp­bygg­ingu [Vetr­ar­mýri og Hnoðraholt] ætl­um við að móta stefnu fyr­ir Víf­ilstaðareit­inn. Það er lang­tíma­mál.“ Tek­ur Alm­ar fram að þar séu þó sögu­leg­ar bygg­ing­ar eins og spít­al­inn sem eru tákn­ræn fyr­ir Garðabæ og að hon­um sé annt um að skipu­leggja fal­lega í kring­um þær. Þá er einnig rétt að taka fram að eig­andi nú­ver­andi bygg­inga er ríkið, en Garðabær á landið sjálft. Þarf því að fara í þessa vinnu með rík­inu.

Horft yfir Víf­ilstaði. Fjær er svo Vetr­ar­mýr­in og Hnoðraholtið fyr­ir miðju enn fjær. Mynd­in er tek­in áður en fram­kvæmd­ir í Vetr­ar­mýri hóf­ust. Ljós­mynd/​Garðabær

„Eitt þeirra sveit­ar­fé­laga sem eig­um auðvelt að svara því kalli“

Í dag búa um 18.500 mann í Garðabæ og seg­ir Alm­ar að hann eigi von á því að á næstu 5 árum verði íbúa­fjöld­inn kom­inn upp í um 22 þúsund og muni svo jafnt og þétt fjölga áfram á þeim árum sem fylgja. „Við höf­um rými til að stækka og það er í okk­ar plön­um. Það er mik­il umræða um fast­eigna­markaðinn og við erum eitt þeirra sveit­ar­fé­laga sem eig­um auðvelt að svara því kalli,“ seg­ir Alm­ar og bæt­ir við: „Það verður gott fram­boð af íbúðum í Garðabæ.“

Alm­ar tek­ur þó fram að passa þurfi að stækk­un­in verði ekki of hröð. „Við leggj­um metnað í að byggja upp bæ­inn með serka innviði og vilj­um geta stýrt upp­bygg­ing­ar­hraðanum. Við vilj­um hafa íbúa sem eru stolt­ir af góðri þjón­ustu og of hröð upp­bygg­ing get­ur skemmt hana.“

Ásamt þess­um hverf­um aust­an Reykja­nes­braut­ar hef­ur upp­bygg­ing haf­ist á nokkr­um reit­um á Álfta­nesi, en Alm­ar seg­ir að unnið sé með þó nokk­ur fleiri svæði á Álfta­nesi.  Þar gildi þó aðeins aðrar hug­mynd­ir en víða ann­ars staðar á höfuðborg­ar­svæðinu, en unnið er út frá stefn­unni „sveit í borg.“ Alm­ar seg­ir samt vilja til að byggja upp sterk­ari kjarna á Álfta­nes­inu sem hafi þá burði í að þjón­ustu íbú­ana þar bet­ur. Hins veg­ar sé vilji til að tvinna það sam­an t.d. við að þar sé gert ráð fyr­ir aðeins meira plássi á milli húsa og ná­lægðar við nátt­úr­una.

Heimild: Mbl.is