Home Fréttir Í fréttum Segja sögur verkamanna í Katar á fótboltaspilum

Segja sögur verkamanna í Katar á fótboltaspilum

105
0
Mynd: EPA
Sænskir rannsóknarblaðamenn, í samstarfi við kollega sína í Suður-Asíu, hafa safnað sögum verkamanna sem hafa látist eða slasast við vinnu sína við undirbúning HM í fótbolta í Katar. Sögurnar gefa þeir út á spilum, líkum þeim sem tíðkast að gefa út með upplýsingum um leikmenn.

Talið er að þúsundir verkamanna, flestir frá fátækjum ríkjum í Suður-Asíu, hafi beðið bana í slysum, látist vegna álags eða slasast alvarlega síðan undirbúningur hófst fyrir mótið sem fer fram í landinu í lok ársins. Þeir eru sagðir vinna langa vinnudaga við erfiðar og hættulegar aðstæður. Meðal annars við að byggja íþróttaleikvanga, hótel, lestarstöðvar og vegi.

<>

Blankspot, hópur rannsóknarblaðamanna í Svíþjóð, hefur safnað sögum hluta verkamannanna og gefið þær út á spilum eða spjöldum líkt og hingað til hafa verið gefin út með myndum og upplýsingum um leikmenn. Hópurinn starfar með blaðamönnum í heimaríkjum verkamannanna. Þeir hafa rætt við ástvini þeirra sem fóru til Katar en komu aldrei til baka. Sögurnar eru aðgengilegar í lengra formi á síðu verkefnisins, Cards of Qatar.

Mynd: Skjáskot af https://cardsofqata

Martin Schibbye, ritstjóri og stofnandi Blankspot, telur að mikil áhersla hafi verið lögð á tölfræði um það hve margir hafi dáið. „Og í staðinn fyrir það vildum við segja sögur fólksins á bak við tölfræðina,“ segir Schibbye.

Kortin verða send til æðstu embættismanna í Katar, FIFA, og til þeirra fyrirtækja sem eru helstu stuðningsaðilar mótsins, svo sem Coca-Cola, Adidas og Budweiser. „Ég myndi segja að þau beri ábyrgð á því hvernig farið er með verkamenn í Katar og ég vil vita hvað þau hugsa þegar þau lesa þessar sögur og hvað þau ætla að gera til að tryggja að slíkt gerist aldrei aftur.“

Saga Mohammad Shahid Miah, frá Bangladesh, er ein þeirra sem sögð er á spilunum. Hann var kokkur og bílstjóri og bjó í húsnæði á vegum vinnuveitanda. Haustið 2020 flæddi inn í húsið þar sem hann svaf. Vatnið komst í rafmagn og þegar hann fór á fætur fékk hann raflost og lést. Hann hafði greitt ráðningarfyrirtæki upphæð sem jafngildir um 640.000 íslenskra króna til að fá starfið. Vinnuveitandinn sendi líkið ekki heim til Bangladesh heldur skröpuðu vinnufélagar hans saman fyrir sendingarkostnaði.

Heimild: Ruv.is