Home Fréttir Í fréttum Nýtt lofthreinsiver á Hellisheiði í vændum

Nýtt lofthreinsiver á Hellisheiði í vændum

121
0
Mynd: Vb.is

Með nýja lofthreinsiverinu, sem kallast Mammoth, fara afköst föngunar á Hellisheiði úr fjórum þúsundum tonna af CO2 á ári í alls 40 þúsund tonn.

<>

Nýtt lofthreinsiver Climeworks á Hellisheiði mun tífalda núverandi afköst föngunar og förgunar á koldíoxíði (CO2) úr andrúmslofti á svæðinu í samstarfi við Carbfix og Orku náttúrunnar. Fyrir er Orca, lofthreinsiver Climeworks, sem tók til starfa síðastliðið haust og var hið fyrsta sinnar tegundar í heiminum.

Með nýja lofthreinsiverinu, sem kallast Mammoth, fara afköst föngunar á Hellisheiði úr fjórum þúsundum tonna af CO2 á ári í alls 40 þúsund tonn en því er síðan fargað neðanjarðar með Carbfix tækninni, þar sem það hvarfast við berggrunninn og myndar steindir. Framkvæmdir við Mammoth eru hafnar og gert er ráð fyrir að nýja stöðin taki til starfa eftir 18-24 mánuði.

„Þetta eru mikilvæg tímamót fyrir Climeworks og iðnaðinn í heild sinni. Með Mammoth nýtum við möguleikana sem tækni okkar býður upp á til að stækka hratt og leggjum grunn að því markmiði okkar að ná afköstum sem mæld verða í milljörðum tonna af CO2 á ári og geta þannig haft afgerandi þýðingu fyrir loftslag jarðar,” segir Jan Wurzbacher, annar tveggja stofnanda og forstjóra hins svissneska Climeworks, í tilkynningu.

Mammoth er átjánda verkefni Climeworks og verður annað lofthreinsiver fyrirtækisins sem starfrækt er í beinum tengslum við förgun koldíoxíðs á staðnum. Tækninni má beita þar sem saman fara endurnýjanleg orka og möguleikar á förgun CO2 og vinnur Climeworks nú að tilraunaverkefnum á nokkrum stöðum í heiminum.

Úr lofti í stein með Carbfix

„Þetta verkefni er mikilvægt skref í þróun og skölun tækni sem fangar CO2 beint úr andrúmslofti og það nýtur góðs af tíu ára reynslu Carbfix af því að steinrenna CO2 á öruggan hátt,“ segir Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix, en aðferð fyrirtækisins felst í að leysa CO2 í vatni og dæla því niður í berggrunninn þar sem það steinrennur með náttúrulegum ferlum á innan við tveimur árum.

„Við viljum styðja við þróun þessa stækkandi iðnaðar, hvort sem er á Íslandi eða annars staðar í heiminum, með því að taka við CO2 og binda það varanlega. Til að loftslagsmarkmiðin náist þarf að draga hratt úr losun CO2 en til viðbótar þarf að stíga stór skref í að fanga og farga því sem þegar hefur verið losað. Aðferð okkar, sem byggist á því að breyta CO2 í steindir, er öruggasta og varanlegasta leiðin til förgunar.“

Jarðhitagarður eflir nýsköpun

Orka náttúrunnar útvegar lofthreinsiverinu rafmagn, skiljuvatn og kalt vatn, en það verður staðsett í Jarðhitagarði ON á Hellisheiði, eins og Orca sem þar er fyrir.

„Mammoth verður umtalsverð og ánægjuleg viðbót við Jarðhitagarðinn okkar á Hellisheiði en tilgangur hans er einmitt að styðja við þróun á loftslagsvænni tækni. Með honum viljum við fullnýta afurðir Hellisheiðarvirkjunar á ábyrgan og umhverfisvænan hátt og skapa verðmæti með hringrásarhugsun að leiðarljósi,“ segir Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra ON.

„Orka náttúrunnar hefur dregið verulega úr losun CO2 frá Hellisheiðarvirkjun með föngun og förgun í samvinnu við Carbfix og markmiðið er að hún verði sporlaus árið 2025.“

Fanga þurfi 310 milljarða tonna af CO2

Í nýjustu loftslagsskýrslu Sameinuðu þjóðanna kemur fram að auk verulegs samdráttar í losun er föngun og förgun CO2 úr andrúmslofti nauðsynleg í meirihluta þeirra sviðsmynda sem takmarka hlýnun andrúmsloftsins við 1,5 gráður árið 2100. Í skýrslunni kemur fram að til að ná því markmiði þurfi að fanga allt að 310 milljarða tonna af CO2 úr andrúmsloftinu til næstu aldamóta.

„Til að ná markmiði um að fanga milljarð tonna af CO2 fyrir 2050 þurfa afköstin að verða mæld í milljónum tonna fyrir 2030. Enginn hefur áður byggt lofthreinsiver eins og þetta og við erum bæði auðmjúk og raunsæ gagnvart þeirri staðreynd að lykillinn að árangri er að öðlast reynslu í rekstri tækninnar eins fljótt og hægt er. Hratt innleiðingarferli okkar mun gera okkur kleift að byggja öflugustu einingarnar á milljóna tonna skala,” segir Cristoph Gebald, annar meðstofnenda og forstjóra Climeworks.

Heimild: Vb.is