Home Fréttir Í fréttum Tæplega 600 hjúkrunarrými í vinnslu hjá FSRE

Tæplega 600 hjúkrunarrými í vinnslu hjá FSRE

189
0
Mynd: FSRE.is

582 hjúkrunarrými eru nú í undirbúningi eða byggingu hjá Framkvæmdasýslunni – Ríkiseignum. Heimilin verða afhent eigendum sínum á árabilinu 2022-2027.

<>

Engum dylst þörfin fyrir hjúkrunarrými á Íslandi. Um þessar mundir eru tólf hjúkrunarheimili í þróun og framkvæmdum hjá Framkvæmdasýslunni – Ríkiseignum (FSRE) með alls 582 rýmum.

Heildarkostnaður við þessi hjúkrunarheimili án búnaðar er áætlaður að verði tæplega 31 milljarður króna. Heimilin eru á ýmsum vinnslustigum, allt frá því að vera á byrjunarreit upp í að vera nánast tilbúin. Meðalkostnaður á hvert rými, með öllum búnaði heimilisins er áætlaður um 55 milljónir króna. Heimilin verða afhent eigendum sínum á tímabilinu 2022-2027.

Innigarður hjúkrunarheimilsins í Árborg. Mynd: FSRE.is

Langþráð hjúkrunarheimili í Árborg verður tilbúið til afhendingar til rekstraraðila í júlí. Bygging heimilisins hefur staðið frá sumri 2019. Það sem einkennir bygginguna er form hennar, en hún er hringlaga með skjólsælum innigarði.

Heimilið er á tveimur hæðum og verða þar fimm deildir með sextíu hjúkrunarrýmum. Öll herbergin eru einstaklingsherbergi, sem bjóða upp á þann möguleika að hjón geti dvalið saman í herbergi. Svalir eða pallur er við öll herbergin, sem mörg hver bjóða upp á glæsilegt útsýni yfir Ölfusá.

Hönnunarsamkeppni vegna heimilisins, fór fram á árinu 2017. Urban arkitektar og LOOP architects aps. urðu hlutskörpust í samkeppninni. Á sama tíma var ákveðið að stækka heimilið úr 50 rýmum í 60 rými.

Fullnaðarhönnun heimilisins lauk í febrúar 2019. Hófst þá rýni gagna og undirbúningur útboðs. Verkið var boðið út sumarið 2019 og tilboð opnuð 30. september.

Lægstbjóðandi var Eykt ehf. Fyrsta skóflustunga fór fram 22. nóvember 2019 og hófust framkvæmdir við jarðvinnu þá um leið í kjölfarið. Hafa framkvæmdir staðið óslitið yfir síðan. Heimilið verður afhent eigendum sínum sumarið 2022 og má vænta að fyrstu íbúarnir flytji inn með haustinu.

Heimild: FSRE.is