Home Fréttir Í fréttum Lúxus hótel með 40 herbergjum byggt á Grenivík

Lúxus hótel með 40 herbergjum byggt á Grenivík

209
0
Lúxus hótelið á Grenivík, sem framkvæmdir eru hafnar við. Hótelið verður glæslegt í alla staði og útsýnið frá því stórkostlegt. AÐSEND

Framkvæmdir eru að hefjast við nýtt sjö þúsund fermetra lúxus hótel á Grenivík. Fjörutíu herbergi verða á hótelinu, þar af fjórar svítur.

<>

Grýtubakkahreppur er við austanverðan Eyjafjörð. Í sveitarfélaginu búa um 370 íbúar, um 300 á Grenivík og um 70 manns í blómlegri sveit suður af Grenivík. Það er mjög snyrtilegt í þorpinu og mannlíf þar gott, enda hjálpast allir við að gera flott sveitarfélag að enn betra sveitarfélagi.

Ingólfur Kristinn er fæddur og uppalinn á Grenivík og þekkir því mjög vel til staðarins. Hann rekur m.a. gistiheimili og er smiður. Hann talar líka skemmtilega og hreina norðlensku.
MAGNÚS HLYNUR HREIÐARSSON

Á staðnum eru flott fyrirtæki eins og harðfiskframleiðsla á eyjabita og lyfjafyrirtækið Pharmarctica svo eitthvað sé nefnt. Grýtubakkahreppur er mjög vel rekið enda á það töluvert af kvóta og gerir vel við íbúa sína.

Ingólfur Kristinn er fæddur og uppalinn á Grenivík og þekkir því mjög vel til staðarins. Hann rekur m.a. gistiheimili og er smiður.

„Það er mikil samheldni í fólki hérna og jákvæðni, mikil jákvæðni og mikil uppbygging í gangi, nóg að gera, það vantar bara fleira fólk. Það er hér fyrirtæki, sem er að fara að byggja hérna hátt í sjö þúsund fermetra lúxus hótel, sem á að opna eftir eitt og hálft ár. Ég ætla að vona að þeir finni iðnaðarmenn í það, það er dálítill skortur á þeim.“ Segir Ingólfur og bætir við.

„Þetta verða 40 herbergi og ég held að það séu einhverjar fjórar svítur að minnsta kosti, 150 til 160 fermetrar í hótelinu“.

Öflug harðfiskframleiðsla er á Grenivík.
MAGNÚS HLYNUR HREIÐARSSON

Íbúarnir eru mjög ánægðir með að búa á Grenivík.

„Ég hef alltaf búið hérna og finnst bara mjög gott, gott að ala börnin hérna upp,“ segir Gyða Dröfn Árnadóttir.

„Þetta er bara rólegur og snyrtilegur staður með góðu fólki,“ segir Guðrún Árnadóttir.

„Það er mikil samstaða á Grenivík og allir góðir við hvern annan,“ segir Brynhildur Jóna Helgadóttir.

Grýtubakkahreppur er sjálfstætt sveitarfélag, sem er mjög vel stætt. En á sveitarfélagið svona mikið af peningum?

„Já, fullt rassgatið af peningum,“ segir Brynhildur Jóna og skellihlær.

„Hér býr bara skemmtilegt og gott fólk, samstaða er mikil og allir góðir við alla, bara stuð,“ segir Margrét Ösp Stefánsdóttir.

„Ég held að það sé bara allt samfélagið, sem gerir það að svona góðu samfélagi, það er samstaða um nánast allt. Það er góð stemming á meðal íbúa, allir skemmtilegir og alltaf nóg að gera, okkur vantar bara fleira fólk til okkar,“ segir Gunnþór Ingimar Svavarsson.

Hressir og skemmtilegir strákar á Grenivík, sem segja frábært að búa á staðnum og það sé mjög stutt að fara til vina sinna.
MAGNÚS HLYNUR HREIÐARSSON

Nokkrir hressir strákar á Grenivík taka undir með fullorðna fólkinu, þeir segja frábært að búa á staðnum, það sé stutt að fara til vina sinna, staðurinn sé lítill og það þekki allir alla.

Myndband af nýja lúxus hótelinu

Heimild:Visir.is