Sextán þúsund og fimm hundruð fermetra bygging undir höfuðstöðvar Landsbankans við hlið Hörpu er langt komin. Eitt af því sem vakið hefur hvað mesta athygli við bygginguna er stuðlabergið sem húsið verður klætt með. Hundruð tonna af stuðlabergi fara utan á húsið. Það er fengið úr Hrepphólanámu sem er í einkaeign og er bergið því ekki friðað.
„Við erum að vonast til að komast inn í lok ársins,“ segir Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
m
Hver verður helsta breytingin fyrir ykkur?
„Það verður að komast úr tólf húsum hérna í Kvosinni og ákveðinni starfsemi í Borgartúni og komast svona á einn stað og auka samvinnuna og sýnileika starfsfólks. En líka það að við erum að helminga um það bil fermetrana sem við erum að nota. Þannig að við erum að fara í allt öðruvísi vinnulag,“ segir Lilja.
Úr 18.000 fermetrum í 10.000
Starfsfólkið hefur nú átján þúsund fermetra vinnurými en með flutningum fækkar þeim í tíu þúsund því Landsbankinn hyggst selja eða leigja út sex þúsund og fimm hundruð fermetra.
„Við erum að vinna í því að koma þeim frá okkur,“ segir Lilja.
6500 fermetrar leigðir út eða seldir
Stjórnarráðið greindi frá því í febrúar að það hygðist ræða við Landsbankann um kaup ríkisins á norðurhúsinu við Austurbakka. Húsnæðið sé nútímalegt og sveigjanlegt skrifstofuhúsnæði sem hægt sé að sérsníða að þörfum Stjórnarráðsins á tiltölulega skömmum tíma. Það sé því álitlegur kostur. Lilja segir að ekki sé komin niðurstaða í viðræðurnar og hvort húsnæðið verði leigt út eða selt.
Áhersla á umhverfismál og sjálfbærni
Lilja segir að stefnt sé að því að byggingin fái næsthæstu einkunn í vistvottunarkerfinu BREEAM.
„Sem þýðir það að við erum að leggja mikla áherslu á öll umhverfismál, sjálfbærni og langtímarekstur hússins. Það er líka hjólarampur hérna rétt fyrir utan,“ segir Lilja. En einnig verður bílakjallari undir húsinu.
12 milljarða kostnaður
Upphaflega átti bygginging að kosta níu milljarða en nú er kostnaðinn metinn á tólf milljarða. Lilja vonar að það standist.
„Við erum að vinna eftir samþykktri áætlun og það gengur mjög vel. Við erum að horfa mikið í kostnaðinn,“ segir Lilja.
Heimild: Ruv.is