Home Fréttir Í fréttum Stöðvarhús Þeistareykjavirkjunar risið

Stöðvarhús Þeistareykjavirkjunar risið

81
0
Mynd: LNS saga
Lokið er við að steypa stöðvarhús Þeistareykjavirkjunar og vinnu við stálgrind hússins lýkur í vikunni. Vont veður hefur gert verktakanum erfitt fyrir síðustu vikur, en hann segir að áætlanir hafi staðist.

Þessi fyrsti áfangi Þeistareykjavirkjunar er 45 megawött. Nýlega skrifaði Landsvirkjun undir tæplega 9 milljarða króna lán til kaupa á vélasamstæðu virkjunarinnar. LNS Saga er aðalverktakinn við Þeistareyki og helstu verkefnin á þessu ári voru steypa á undirstöðum fyrir gufuveitu og bygging á sjálfu stöðvarhúsi virkjunarinnar. Verktakinn segir að þessar áætlanir hafi staðist.

<>

„Við erum í síðustu steypu í veggjum núna í dag og erum að klára reisingu á stálgrind. Þannig að það má segja að öll helstu markmið ársins hafi náðst”, segir Gísli R. Rafnsson, tæknimaður hjá LNS Saga.

Eftir áramót segir Gísli að við taki vinna inni í stöðvarhúsinu og undirbúningur að lagningu á stálpípum gufuveitunnar.

Veðrið við Þeistareyki hefur heldur betur breyst síðustu vikurnar. Eftir einmuna blíðu fram eftir vetri, hefur kólnað mjög síðustu vikurnar.

„Við eins og aðrir landsmenn erum búnir að fá hluta af óveðrinu. Fengum yfir okkur kolbrjálað veður um þarsíðustu helgi og í framhaldi veðrið sem gekk yfir alla hina. Þannig að það er búið að ganga á ýmsu, en þetta hefur allt gengið”, segir Gísli.

Það var fjölmennast á virkjunarsvæðinu í sumar. Þá störfuðu hér um 120 manns. Það fækkaði mikið í vetur og nú eru flestir á leið heim í jólafrí.

„Planið hjá okkur er að enda þetta núna 18. desember. Þá sendum við alla heim og hefjum síðan framkvæmdir hér aftur á nýju ári”, segir Gísli.

Heimild: Rúv.is