Í málefnasamningum flestra sveitarstjórna er lögð áhersla á því að gera átak í húsbyggingum. Til að mæta fólksfjöldaþróun þarf að byggja 3,500-4,000 íbúðir á ári. Innan við 3,000 íbúðir verða byggðar í ár. Ingólfur Bender hagfræðingur Samtaka atvinnulifsins segir að það vanti um 2 þúsund iðnararmenn til að mæta þessari þörf.
„Á sama og það vantar iðnaðarmenn erum við að vísa fólki frá sem sækja um að komast í iðnnám. Í fyrra var um 700 vísað frá námi og útlit er fyrir að sá fjöldi verði hærri í ár. Þetta er mjög slæmt. Vandinn er ekki í skólakerfinu sjálfu því þar er fullur vilji að gera betur. Það vantar að stjórnvöld veiti fjármagni inn í kerfið”, segir Ingólfur.
Hilmar Harðarson formaður Sameindar tekur í sama streng.
„Þetta er sameiginlegt vandamál allra iðnaðarmannafélaganna og Samtaka atvinnulífsins að það vantar fleiri skólapláss. Það þarf að fara að gera eitthvað í því að byggja nýjan Tækniskóla og jafnvel einn skóla til viðbótar á Höfuðborgarsvæðinu. Auðvitað vonum við að það verði íslenskir iðnaðarmenn sem byggja allar þessar íbúðir. Það er erfitt að sjá það gerast eins og staðan er núna.
Við sjáum að það er að verða erfiðara að fá iðnaðarmenn frá Póllandi og fleiri stöðum og því er verið að leita á ný mið sem við þekkjum ekki eins vel. Við erum bara næstu hálfdrættingar miðað við aðrar Evrópuþjóðir í að framleiða iðnaðarmenn”. Hilmar segir að grunnskólanemendur sitji fyrir skólavist. Komast þeir eldri þá ekki að? „Nei þeir sem eru eldri þeir voru langflestir í þessum hópi 700 manns sem var vísað frá bara í Tækniskólanum í fyrra.
Heimild: Ruv.is