Home Fréttir Í fréttum Úthlutun lóðar í Skerjafirði frestað á fyrsta fundi nýrrar borgarstjórnar

Úthlutun lóðar í Skerjafirði frestað á fyrsta fundi nýrrar borgarstjórnar

138
0

Úthlutun lóðar og sala byggingarréttar við Einarsnes í Skerjafirði var sett á dagskrá fyrsta fundar nýrrar borgarstjórnar í gær.

<>

Þetta gerðist aðeins sólarhring eftir að málefnasamningur nýs meirihluta var kynntur þar sem segir að rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar verði tryggt á meðan unnið sé að undirbúningi nýs flugvallar í nágrenni borgarinnar.

Lóðin sem til stóð að borgarstjórn úthlutaði í dag er innan flugvallargirðingar í svokölluðum Nýja Skerjafirði. Þegar kom að afgreiðslu tillögunnar undir lok fundarins lýsti Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar, því hins vegar yfir að málinu hefði verið frestað.

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem fór fyrir undirskriftarsöfnun Hjartans í Vatnsmýri til stuðnings flugvellinum árið 2013, vakti athygli á málinu í facebook-færslu í dag.

„Nú á fyrsta degi reynir á borgarfulltrúa Framsóknar í nýjum meirihluta í borgarstjórn,“ segir Njáll Trausti um lóðarúthlutunina í Einarsnesi.

„Hér er rétt að árétta að um er að ræða 4-5 hæða há hús. Það hefur komið fram af hálfu Isavia að slíkar byggingar munu hafa áhrif á flugöryggi og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar,“ segir þingmaðurinn.

„Stóra spurningin er hvort borgarfulltrúar Framsóknar ætli að halda sig við þann málflutning síðast í gærkvöldi að unnið yrði með Isavia að þvi að tryggja flugöryggi og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar.

Eða er borgarstjórnarflokkur Framsóknar að falla strax á fyrsta prófinu? Sólarhring eftir að stofnað var til nýs meirihluta á Reykjavík.

Við skulum sjá hvernig fer,“ skrifar Njáll Trausti.

Þeir Friðrik Pálsson og Njáll Trausti Friðbertsson stóðu að undirskriftasöfnuninni Hjartað í Vatnsmýrinni árið 2013.
SKJÁSKOT/STÖÐ

Bæði Isavia og innviðaráðherra hafa lýst því yfir að nýjar byggingar á svæðinu muni skerða rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagði þann 4. maí síðastliðinn að það gengi ekki að borgin fengi Skerjafjarðarlandið afhent. Sagði hann leiðinlegt að þurfa að slá á puttana á meirihlutanum í borginni en ætlast yrði til þess að borgin virti flugvallarsamkomulag sem gert var fyrir tveimur árum.

Daginn eftir, þann 5. maí, samþykkti borgarráð á átakafundi tillögu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um að úthluta lóðinni að Einarsnesi með byggingarrétti fyrir allt að 140 íbúðir.

Þar sem lóðarúthlutunin var afgreidd í ágreiningi þurfti að leggja málið fyrir borgarstjórn, sem gert var í dag. Málinu var hins vegar frestað, eins og fyrr segir.

Hér má heyra innviðaráðherra slá á puttana á borgarstjórnarmeirihlutanum í síðasta mánuði og svör borgarstjóra:

Heimild: Visir.is