
Samningur um hönnun á nýrri brú yfir Fossvog var undirritaður í höfuðstöðvum EFLU í vikunni. Hönnunartillagan var unnin af EFLU í samstarfi við BEAM Architects , bar sigur úr býtum í hönnunarsamkeppni Vegagerðarinnar undir lok síðasta árs.
Leynd var yfir samkeppninni meðan á henni stóð og gilti ströng nafnleynd um höfunda tillagnanna hjá dómnefnd.

Nýja brúin er ætluð gangandi og hjólandi vegfarendum ásamt því að vera lykillinn að leið Borgarlínunnar yfir Fossvog. Hún lokar 5 km hring um hið vinsæla útvistarsvæði í Fossvogi og eykur notagildi og aðdráttarafl svæðisins. Brúin mun verða áberandi kennileiti í borgarumhverfinu og fellur vel að skipulagi og þeirri þróun sem vænta má til framtíðar í Reykjavík.
Að sögn Magnúsar Arasonar, verkefnisstjóra hjá EFLU, er um mjög mikilvægt verkefni að ræða. „Á íslenskan mælikvarða liggur sérstaða verkefnisins í stærð þess og einnig staðsetningunni í hjarta höfuðborgarsvæðisins. Við munum nú strax taka til við að þróa áfram samkeppnistillöguna í samstarfi við okkar samstarfsaðila og verkkaupa og erum spennt fyrir því verkefni. Um stórt og mikið hönnunarverk er að ræða en við höfum fundið að það hafa allir áhuga á að leggja því lið.“
Gert er ráð fyrir að hönnun brúarinnar ljúki á fyrri hluta næsta árs og að brúin verði tilbúin þegar Borgarlínan byrjar að ganga árið 2025.
Heimild: Efla.is