Home Fréttir Í fréttum Vilja byggja 35.000 íbúðir á 10 árum

Vilja byggja 35.000 íbúðir á 10 árum

155
0
Mynd: Hjalti Haraldsson / RÚV
Starfshópur forsætisráðherra leggur til að byggðar verði þrjátíu og fimm þúsund íbúðir á landinu næstu tíu ár, til þess að bregðast við húsnæðisskorti. Hópurinn vill að ríki og sveitarfélög geri rammasamning sín á milli til þess að tryggja uppbygginguna.

Nýjasta skýrsla Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sýnir svart á hvítu það ófremdarástand sem ríkir á húsnæðismarkaði. Aldrei hafa fleiri íbúðir selst yfir ásettu verði heldur en í mars og eftirspurn er langt umfram framboð.

<>

3-4 þúsund íbúðir á ári

Starfshópurinn leggur því til að á næstu fimm árum verði byggðar minnst fjögur þúsund íbúðir á landinu á ári og þrjú þúsund íbúðir hið minnsta næstu fimm ár þar á eftir. Alls eru það þrjátíu og fimm þúsund íbúðir á næstu tíu árum.

Til samanburðar var töluvert minni uppbygging árin 2011 til 2020. Þá voru byggðar minnst 565 íbúðir árið 2011 og flestar voru byggðar árið 2020, eða 3.816. Á þessu ári munu hins vegar aðeins koma inn á markaðinn um 2.800 íbúðir.

Telja markmiðið raunhæft

Formaður starfshópsins telur svo hraða uppbyggingu á næstu árum vel mögulega.

„Já, við höfum trú á því að þetta sé raunhæft markmið og auðvitað er ýmislegt sem gæti gerst sem kemur í veg fyrir það en við teljum að ef allir sameinast um þetta þá sé þetta vel gerlegt en það er ekki bara það, þetta er bara nauðsynlegt“ segir Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, sem fer fyrir starfshóp forsætisráðherra.

Áhætta geti fylgt svo miklum hraða í uppbyggingu

Formaður starfshópsins viðurkennir að svo hraðri uppbyggingu fylgi vissulega áhætta. Ein þeirra er að slakað sé á kröfum um gæði, en leggja á sérstaka áherslu á að svo verði ekki.

„Við erum meðal annars að leggja til að byggingarreglugerð og skipulagsferlinu, við endurskoðun á því verði meira horft til gæða húsnæðis“ segir Anna.

Mikilvægt að gera langtímaáætlun og fylgja henni

Hún segir erfitt að segja hvort grípa hefði þurft inn í með markvissari hætti fyrr, en ástandið sem skapaðist í heimsfaraldrinum hafi til dæmis enginn séð fyrir.

„Húsnæðismálin eru bara þess eðlis að það eru engar töfralausnir, það er ekkert sem gerist 1,2 og 3. Þetta tekur allt töluverðan tíma, þess vegna er bara mikilvægt við gerum þessa langtímaáætlun núna og henni sé svo fylgt eftir með markvissum hætti“ segir Anna.

Heimild: Ruv.is